Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 21:02:24 (2714)

2003-12-04 21:02:24# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., Frsm. 1. minni hluta EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[21:02]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Einar Már Sigurðarson) (andsvar):

Herra forseti. Við skulum halda aðeins áfram með þetta ágæta mál. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir, og það verður fróðlegt að fá viðhorf hv. þingmanns gagnvart því í framhaldi af þessum skorti á stefnu til framtíðar, með leyfi forseta:

,,Ráðuneyti heilbrigðismála, fjármálaráðuneytið og faghópar innan sjúkrahússins hafa mismunandi skoðanir á stefnumótun sjúkrahússins. Þessir aðilar þurfa að ná samstöðu um það hvaða áherslu skuli leggja á sparnað í rekstri, skilvirkni og magni þeirrar þjónustu sem veita á og þátt rannsókna og kennslu í starfseminni.``

Hér er nær öll starfsemi sjúkrahússins komin sem þarf að ná samstöðu um.

Hvernig stendur á því, hv. þingmaður, að þau stjórnvöld sem þú hefur stutt um æðilangt skeið hafa ekki sinnt þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að sýna frumkvæði í því að stefna verði mótuð á þessu stóra sjúkrahúsi sem er auðvitað sá einstaki fjárlagaliður sem tekur líklega hvað mest á fjárlögum hvers árs?