Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 22:09:03 (2724)

2003-12-04 22:09:03# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[22:09]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. hefur greinilega ekkert velt því fyrir sér hvaða atvinnutækifæri mætti hugsanlega byggja upp á Suðurnesjum, því miður, því það væri svo sannarlega kærkomið að fá hugmyndir um það. Ég geri mér fulla grein fyrir því að atvinnuástand á Suðurnesjum er ekki gott. Ég vona svo sannarlega að það verði af því að þar byggist upp fyrirtæki sem yrði í rörum og pípum. Það er hins vegar ekki í höfn, því miður, en ríkisvaldið hefur, að svo miklu leyti sem það getur komið að slíku máli, stutt það. En við erum að tala hér um gríðarlega fjármuni og mér finnst það vera nokkuð óábyrgt af hv. þm. að koma fram með tillögu í þessa átt, án þess að hafa hana betur ígrundaða, án þess að geta talað betur um það í hvað ætti að verja þessum fjármunum. Það er ekki nóg að setja fram tillögu á pappír og hafa ekki hugsað hana lengra.