Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 22:10:20 (2725)

2003-12-04 22:10:20# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[22:10]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg undrandi á svörum hæstv. ráðherra við þeim spurningum sem hér hafa verið fram settar. Eitt þúsund millj. kr. og jafnvel tvöfalt það eru ekki háir fjármunir, hæstv. ráðherra, í atvinnulífi á Íslandi í dag. Við höfum séð það í útgerð og fiskvinnslu hirst og her um landið að slíkir fjármunir eru ekki lengi að fara þegar menn eru að véla með t.d. aflaheimildir sín á milli eins og ég nefndi hér áðan.

Við munum horfa upp á verulegan samdrátt á Keflavíkurflugvelli á næstu árum. Ég held að allir sjái það. Þar eru afskaplega miklar húseignir sem við Suðurnesjamenn mundum vilja að kæmust í notkun í atvinnurekstri, t.d. væri vel þess virði að dusta rykið af hugmyndum um frísvæði í tengslum við Keflavíkurflugvöll og ýmsan iðnað sem passar akkúrat á svæði við alþjóðaflugvöll. Möguleikarnir á Suðurnesjum eru því geysilega miklir.

Í gær vorum við við opnun fyrirtækis sem er að bræða álgjall og vinna ál, hágæðaál, úr álgjalli. Það hefði enginn látið sér detta það í hug einn, tveir og þrír, en það fyrirtæki þarf á fjármunum að halda til að komast í meiri rekstur. Helguvíkursvæðið í Reykjanesbæ er t.d. alveg geysilega stórt og mikið og bærinn er búinn að leggja yfir 600 millj. kr. í að gera það klárt fyrir stærri iðnað. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti að sjá að 1 eða 2 milljarðar kr. í því samhengi, horfandi á hvað bærinn er búinn að leggja til til að gera svæðið klárt fyrir iðnað, 600 millj. kr., eru ekki þeir stóru fjármunir sem hún nefndi áðan.