Fjárlög 2004

Fimmtudaginn 04. desember 2003, kl. 23:55:49 (2730)

2003-12-04 23:55:49# 130. lþ. 42.8 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., VF
[prenta uppsett í dálka] 42. fundur, 130. lþ.

[23:55]

Valdimar L. Friðriksson:

Virðulegi forseti. Á síðustu tveimur vikum hefur margt verið hér sagt og margt komið fram sem kemur nýjum þingmanni frekar einkennilega fyrir sjónir. Kosningasvik ríkisstjórnarflokkanna koma skýrt fram sem hver getur séð er vill í þeim fjárlögum er nú eru til umræðu. Vaxtabætur munu lækka --- ég minnist þess ekki í aðdraganda kosninga að því hafi verið lofað. Ýmsum vegaframkvæmdum, eins og hér hefur komið fram, herra forseti, hefur verið slegið á frest. Það sem stendur þessum nýja þingmanni næst er tvöföldun Vesturlandsvegar frá Víkurbraut til Skarhólabrautar í Mosfellsbæ og þrátt fyrir loforð eru tafir á þeim framkvæmdum. Það sem til stendur má kalla hálfkák því að hætt hefur verið við að gera þarna tvenn mislæg gatnamót. Ég hefði haldið að tvöföldunin ætti að þýða greiðari umferð en það er búið að ákveða að setja tvær hraðahindranir, þ.e. hringtorg, á leiðinni. Til stóð að þarna yrðu tvenn mislæg gatnamót en nú ætlar ríkisstjórnin greinilega að spara sér um 550 millj. eða réttara sagt, hún ætlar að slá því á frest í 12 ár að gera þessi mislægu gatnamót, og ég spyr: Hver trúir því? Eru þessi hringtorg komin til að vera?

Innan ramma fjárlafrv. rúmast ekki aukin fjárframlög til lögreglunnar í Reykjavík eins og um hefur verið beðið til að sinna löggæslustörfum í Mosfellsbæ meira en gert er. Þótt ótrúlegt kunni að virðast, herra forseti, er um að ræða bæjarfélag upp á 6.500 manns þar sem löggæslan er einungis frá klukkan átta til fimm á virkum dögum, engin á kvöldin, engin um nætur eða helgar. Þrátt fyrir það, og það kemur nýjum þingmanni afskaplega spánskt fyrir sjónir, höfum við Mosfellingar átt þingmann lengi, um árabil, í röðum Sjálfstfl., og samt er ekkert að gerast í þessum málum.

Enn eitt sem kemur nýjum þingmanni spánskt fyrir sjónir --- kannski er það bleytan á bak við eyrum sem er að rugla heyrn mína eða skilning --- er stuðningur við öryrkja. Gífurlegar deilur hafa greinilega verið hér síðustu dagana og vikurnar á milli stjórnarflokkanna. Því var búið að lofa að vel yrði tekið á þessu máli en það er nokkuð ljóst, a.m.k. í augum þess er hér stendur að þar hefur Sjálfstfl. verið með hæstv. heilbrrh. í gíslingu síðustu daga. Niðurstaðan er kannski eitthvað í áttina en það er alveg á hreinu og kemur skýrt fram í fjölmiðlum og víðar, m.a. hjá formanni Öryrkjabandalagsins, að hér eru svik í tafli, hér eru kosningasvik.

Enn eitt vil ég minnast á og hefur verið minnst á hér áður að hluta til, það eru skerðingar á framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég hélt að til stæði að spara þarna 170 millj. varðandi fiskvinnslustöðvar annars vegar og hins vegar að skerða bótarétt atvinnulausra fyrstu þrjá dagana. Samkvæmt útreikningum mínum --- ég held að ég sé mjög nálægt hv. þm. Ögmundi Jónassyni --- erum við að tala hér um 135 millj. Ég spyr: Hvers vegna er þessi munur þarna á milli? Hvaða forsendur notuðu menn? Eru menn ekki sammála um hvaða forsendur á að nota? Eru þessir reikningar einfaldlega rangir? Ef þessir reikningar eru rangir þar sem verið er að tala um laun og þar af leiðandi lifibrauð fólksins í landinu, hvað þá um aðra útreikninga í fjárlagafrv.?

Eins og ég segi er ég nýr maður hér og það er margt sem kemur mér á óvart, kannski ekki síst það upphlaup er varð hér í dag þegar menn urðu tvísaga. Það fréttist út af hinu háa Alþingi að ríkisstjórnin ætlaði að falla frá þessari þriggja daga skerðingu atvinnuleysisbóta en félmrh. svaraði því skýrt að það yrði ekki gert. Þarna er greinilega togstreita á milli stjórnarflokkanna. Þetta er hlutur sem við verðum að hafa alveg skýran. Maður heyrir í dag mismunandi orðalag, annar flokkurinn er búinn að ákveða þetta en hinn er að velta þessu fyrir sér. Maður veltir því fyrir sér hvar þetta mál endi. Hvað ætla menn virkilega að gera? Og hvernig stendur á því að við 3. umr. fjárlaga eru menn ekki sammála í ríkisstjórnarflokkunum um hvort þetta eigi að vera eða fara?