Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:45:51 (2744)

2003-12-05 10:45:51# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:45]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Hvalfjarðargöngin voru mikil samgöngubót og eins og flestar samgöngubætur mjög arðsöm framkvæmd. Hvalfjarðargöngin hafa ekki einungis stytt vegalengdir og tengt atvinnusvæði heldur bætt umferðaröryggi, fækkað alvarlegum slysum, forðað mannlegum harmleik sem ella hefði orðið og einnig sparað þjóðfélaginu gríðarháar upphæðir því slys kosta mikla fjármuni.

Ég tel að við verðum að svara þeirri spurningu með málefnalegum rökum hvenær leggja á sérstakan skatt á vegfarendur. Ég sé ekki rök fyrir því að rukka vegfarendur á leið vestur um land um sérstakt gjald fremur en vegfarendur á leið austur á land. Hvers vegna á íbúi á Akranesi sem sækir vinnu til Reykjavíkur að greiða sérstakt gjald umfram þann sem býr á Selfossi?

Í greinargerð viðræðuhóps hæstv. samgrh. um lækkun veggjalds og aukningu afkastagetu Hvalfjarðarganganna eru reifaðar ýmsar leiðir til að lækka megi veggjaldið. Niðurstaða skýrslunnar ber með sér að ef lækka eigi veggjaldið þá verði ríkið að grípa til sérstakra aðgerða, svo sem að yfirtaka tryggingar, lækka eða afnema virðisaukaskatt af gjaldinu eða þá að yfirtaka Spöl hf.

Við í þingflokki Frjálsl. erum tilbúin að setjast yfir það með öðrum stjórnmálaflokkum hvernig ríkið geti yfirtekið göngin sem allra fyrst og hætt gjaldtökunni. Það yrði gífurleg lyftistöng fyrir ferðaþjónustu og annað atvinnulíf á Vesturlandi. Við teljum að gjaldtakan eigi ekki að vara svo áratugum skiptir. Ef ekki næst í gegn að afnema þessi veggjöld teljum við að ríkið eigi nú þegar að koma til móts við íbúa á Vesturlandi og aðra þá sem eiga leið um göngin og afnema virðisaukaskatt á veggjaldinu.