Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:50:25 (2746)

2003-12-05 10:50:25# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:50]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég tel að allir séu sammála um þjóðhagslega arðsemi Hvalfjarðarganganna sem hefur stytt leiðir, til Akraness um 60 km og Borgarness um 42 km og einnig til annarra landshluta. Miðað við gjaldskrá ríkisins fyrir ekna 60 km er gjaldskrá Spalar, þ.e. 1.000 kr. í gjald, 35% þeirrar upphæðar. Afsláttarverðið, 440 kr. gjaldið, er 15% þeirrar upphæðar sem ríkið borgar í kílómetrum talið.

Frá 1. júlí 1998 hefur gjaldskráin ekki breyst enda hefur raungildi gjaldsins lækkað um 18--40%. Með því að ráðast í einkaframkvæmd var verkinu flýtt um a.m.k. einn eða tvo áratugi vegna forsendna gjaldtökunnar. Með afnámi veggjalds yrði veruleg lækkun fjármagns til annarra vegaframkvæmda þar sem þörfin er mjög brýn fyrir. Þá eru menn að tala um 700--800 millj. kr. á ári. Öllum er ljóst að innan fárra ára þarf að bæta við nýrri akrein í suðurmunna Hvalfjarðarganga vegna aukinnar umferðar.

Hvalfjarðargöngin eru prófsteinn á einkaframkvæmdir í samgöngumálum hér á landi sem nauðsynlegt er að láta reyna á og að samningar standi við fjárfesta. Verum minnug þess að allt bendir til að skuldbindingar Spalar verði greiddar upp eftir 12--13 ár og Hvalfjarðargöngin verði þá eign ríkisins. Menn hafa velt vöngum yfir því hvort gjaldið verði þá afnumið en þá þarf að velta fyrir sér spurningunni: Hvað verður um þá 13 Skagamenn sem hafa atvinnu af þessari starfsemi?