Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:56:29 (2749)

2003-12-05 10:56:29# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:56]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég held að við séum öll sammála um að Hvalfjarðargöngin séu mikil samgöngubót og hafi verið rétt ákvörðun á sínum tíma. Ég styð að áfram verði tekið veggjald á framkvæmdum sem eru mjög dýrar ef um er að ræða styttingu á vegalengd og við notum sömu forsendur og áður, að það sé valkostur við aðra leið eins og hugsanleg Vaðlaheiðargöng. Ég styð þann kost ef hægt er að velja aðra leið og eins ef mannvirkið verður að ríkiseign að samningstíma loknum.

En ég tel að ríkið, Vegagerð ríkisins, geti alveg eins valið þessa leið og farið í sams konar fjáröflun og framkvæmdin verði, þegar upp er staðið, ódýrari þar sem lántökur ríkisins eru hagstæðari. Vegtollur eða veggjald eins og nú er tekið væri hluti af því að flýta framkvæmdum en slíkt veggjald yrði lagt af þegar framkvæmdin hefur verið greidd upp.

Það er ljóst að í dag er veggjaldið á Hvalfjarðargöng orðinn skattur á þá sem þurfa að nota göngin til þess að sækja vinnu. Því er mikilvægt að skoða í fyrsta lagi hvort ekki sé hægt að lækka gjaldið og fara þá þá leið að samningurinn taki lengri tíma. Leiðin er ekki lengur valkostur. Það fara allir Hvalfjarðargöngin.