Veggjald í Hvalfjarðargöngum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 10:58:46 (2750)

2003-12-05 10:58:46# 130. lþ. 43.96 fundur 220#B veggjald í Hvalfjarðargöngum# (umræður utan dagskrár), EKG
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Hvalfjarðargöng eru ein mesta samgöngubót sem við Íslendingar höfum fengið. Það er óhætt að segja að menn hafi nýtt þá fjárfestingu. Um 1.700--2.000 bílar óku daglega um Hvalfjörð fyrir Hvalfjarðargöng. Meðalumferð um göngin er rúmlega 50% meiri eða 3.000 bílar á dag samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar.

Áhrifin á slysatíðni eru líka jákvæð. Í raun þýða færri slys þjóðhagslegan sparnað sem nauðsynlegt er að tekið sé tillit til þegar þessi mál eru rædd. Baráttan fyrir Hvalfjarðargöngunum var gríðarlega hörð eins og hér hefur komið fram. Hefðu menn ekki brugðið á það ráð að leita nýrra leiða til að fjármagna göngin má hreinlega efast um að við byggjum í dag við þá samgönguæð sem Hvalfjarðargöngin eru. Ég tel sjálfsagt að menn leiti leiða til að beita notendagjöldum með svipuðum hætti víðar til að flýta framkvæmdum þar sem því verður komið við. Segja má að það sé réttindamál gagnvart því fólki sem greiðir veggjöldin í dag að svo sé gert.

Ein forsendan fyrir því að ráðist var í þessa framkvæmd var sú að ríkisstjórnin samþykkti að beita sér fyrir því á Alþingi að veita fyrirgreiðslu í formi ríkisábyrgðar fyrir örlitlum hluta framkvæmdarupphæðarinnar og það aðeins til skamms tíma, auk þess sem af vegafé var eðlilega veitt fjármagn til uppbyggingar vegtenginga. Samt var það svo að þegar þessar tillögur voru lagðar fyrir Alþingi um þetta leyti á árinu 1995 risu fjölmargir þingmenn upp á afturlappirnar og mótmæltu harðlega. Hverju voru þeir að mótmæla? Jú, þeir vildu ekki að ríkið greiddi fyrir þessu máli. Hverjir stóðu helst fyrir þeim mótmælum? Því er auðvelt að svara. Það voru forustumenn þeirra stjórnmálaflokka sem nú standa að Samfylkingunni.

Gjaldtakan eins og hún er nú er auðvitað íþyngjandi. En eins og hæstv. samgrh. vakti athygli á í ræðu sinni áðan mun gefast tilefni til lækkunar á veggjöldum í framtíðinni. Það er líka eðlilegt að fyrirtækið Spölur kanni sérstaklega möguleika á að gefa fleiri möguleika til gjaldtöku, sérstaklega ívilnandi fyrir þá sem þurfa að aka fram og til baka á sama degi. Ef slíkt væri tekið upp væri sérstaklega komið til móts við þá sem fara oft um göngin, einnig þá á höfuðborgarsvæðinu sem vilja nýta sér þjónustu á Akranesi, í Borgarfirði og öðrum byggðum norðan Hvalfjarðar.