Tryggingagjald

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 11:20:39 (2754)

2003-12-05 11:20:39# 130. lþ. 43.3 fundur 89. mál: #A tryggingagjald# (viðbótarlífeyrissparnaður) frv. 121/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[11:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Við erum komin í 3. umr. um þetta lagafrv. og menn hafa gert grein fyrir afstöðu sinni til frv. á fyrri stigum málsins. Verið er að fella brott málsgrein úr 2. gr. laganna og í athugasemdum með frv. er gerð grein fyrir því hvernig þær eru upphaflega til komnar í áföngum árið 1998 og síðan aftur 2000. Í greinargerðinni segir m.a., með leyfi forseta:

,,Með lögum nr. 148/1998, um breyting á lögum um tryggingagjald, var fjórum nýjum málsgreinum bætt við 2. gr. laganna þar sem kveðið var á um lækkun tryggingagjalds launagreiðanda um allt að 0,2%, en þó ekki meira en sem næmi 10% af iðgjaldshluta launamanns samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þessa lækkun skyldi nýta sem iðgjald launagreiðanda á móti iðgjaldi launamanns til viðbótarlíf eyrissparnaðar.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Með breytingum á lögum um tekjuskatt og eignarskatt vorið 2000 var þessi heimild hækkuð úr 2% í 4% auk þess sem heimild til lækkunar á tryggingagjaldi hækkaði úr 0,2% í 0,4%.``

Áfram segir, með leyfi forseta.

,,Við gerð kjarasamninga í kjölfar lagabreytinganna frá 1998 var síðan samið um sérstakt framlag frá launagreiðanda á móti greiddu framlagi launþegans í viðbótarlífeyrissparnað.``

Það sem ég er að leggja áherslu á er samhengi þessara lagabreytinga og kjarasamninga. Það skal tekið fram að hér er ekki um kjarasamningsbundin ákvæði að ræða. Ég er ekki að halda því fram. En ég er að leggja áherslu á þetta stóra samhengi.

Um markmið þessara laga segir, með leyfi forseta. Áfram vitna ég í athugasemdir við lagafrumvarpið:

,,Meginmarkmiðið með þessum breytingum var tvíþætt, annars vegar að skapa skilyrði fyrir aukinn þjóðhagslegan sparnað og hins vegar að efla lífeyrissparnað landsmanna jafnframt því að auka vitund og sjálfsákvörðunarrétt þeirra yfir þessu sparnaðarformi. Framangreindar breytingar hafa svo sannarlega náð markmiðum sínum með vaxandi þátttöku launþega ár frá ári í þessari sparnaðarleið. Samningar um mótframlag atvinnurekenda hafa án efa stuðlað að því hversu vel hefur tekist til.``

Ég vil taka undir þessi sjónarmið og þessa framsetningu á tilurð laganna og rökstuðningi fyrir þeim á sínum tíma. Að mínu mati halda þessi rök enn þá. Ég hef lagt áherslu á og ítreka það sjónarmið enn að þetta er kjararýrandi fyrir launafólk. Þetta rýrir lífeyrisréttindi launafólks og þetta er auk þess rangur tími. Ef menn á annað borð ætla að nema þessi ákvæði á brott úr lögum þá er rangt að gera það núna. Það er fyrirsjáanleg hætta á þenslu í efnahagslífinu og þá er ástæða til þess að hafa til staðar sem mesta hvata til sparnaðar og eins og hérna er reyndar vikið að og vitnað hefur verið til í greinargerðinni var þetta að hluta til hugsað sem slíkur hvati.

Hér hefur verið vitnað í fjölmargar álitsgerðir frá verkalýðshreyfingunni, frá Alþýðusambandi Íslands, frá BSRB, frá ýmsum fjármálasérfræðingum og Háskóla Íslands. Ég tek undir þau varnaðarorð sem þar koma fram en ætla ekki að fara nánar í það hér í ræðustól. Það hefur þegar rækilega verið gert.