Happdrætti Háskóla Íslands

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 11:26:12 (2755)

2003-12-05 11:26:12# 130. lþ. 43.7 fundur 140. mál: #A Happdrætti Háskóla Íslands# (endurnýjað einkaleyfi) frv. 127/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[11:26]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breyting á lögum um Happdrætti Háskóla Íslands, sem þegar hefur fengið allmikla umræðu í þinginu. Það sem helst hefur verið rætt er sú dagsetning sem kveðið er á um í 1. gr. laganna og felur það í sér að einkaleyfi til að reka happdrætti Háskólans megi veita til 1. janúar 2019. Ég ætla í sjálfu sér ekki að taka afstöðu til þess hvort þetta er rétt. Ég hef kynnt mér rök sem fram hafa komið í því máli. Almennt vil ég segja að ég er hlynntur Happdrætti Háskóla Íslands sem hefur staðið fyrir uppbyggingu innan veggja Háskólans og reyndar veggjanna sjálfra, því þetta happdrætti eða aflafé úr happdrættinu hefur verið notað til þeirra hluta. Hins vegar vil ég í tengslum við þetta víkja að happdrættinu í víðari skilningi og þá að spilakössunum eða spilavítisvélunum sem Háskóli Íslands og Háskólahappdrættið reka og eru reyndar ekki ein um það vegna þess að þar er á ferðinni líka nokkuð sem heitir Íslandsspil --- Íslenskir söfnunarkassar mun það einhvern tímann hafa verið --- og skilar dágóðum tekjum.

Undanfarin ár höfum við hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir skipst á að afla upplýsinga um aflaféð úr þessum sjóðum. Í svari sem henni var veitt um aflafé úr spilavítisvélunum fyrir árið 2002 kemur fram að Íslandsspil sem áður hét Íslenskir söfnunarkassar og er rekið af SÁÁ, Rauða krossinum og Slysavarnafélaginu Landsbjörg --- þetta eru þeir aðilar sem eiga aðild að þessu kassasamlagi --- fékk á árinu 2002 1 milljarð 360 millj. 528 þús. 631 kr., með öðrum orðum rúmlega 1,3 milljarða kr. Háskólahappdrættið fékk úr spilavítisvélunum 1 milljarð 236 þús. 604 kr. Þetta eru upphæðirnar sem við erum að tala um. Þær eru teknar úr vösum fólks sem margt hvert er ekki sjálfrátt gerða sinna.

Menn hafa deilt um hve margir eru haldnir spilafíkn. Þó deilir enginn um það, það véfengir enginn að það sé 0,5--0,6% hverrar þjóðar. Jafnvel aðstandendur spilavítanna hafa viðurkennt þessa tölu. Ef það er rétt að 0,6% Íslendinga séu haldnir spilafíkn þá þýðir það að 1.700 einstaklingar eru haldnir þeirri fíkn. Þá er Háskóli Íslands, Rauði krossinn, SÁÁ og Slysavarnafélagið Landsbjörg að nýta sér veikindi þessa fólks til að hafa af því fé, til að fjármagna starfsemi sína.

Ég sakna þess að hér skuli ekki vera til staðar hæstv. dómsmrh. sem er ábyrgur fyrir því siðleysi að nýta sér veikleika sjúks fólks til að hafa af því peninga til að fjármagna starfsemi sína. Hvað ætlar hann eiginlega að gera? Ég er búinn að beina þessum fyrirspurnum til hans og forvera hans árum saman. Svörin eru engin. Menn hafa haft uppi góð orð um það öðru hverju að setja eigi niður nefndir til að kanna málin o.s.frv. En síðan er ekkert gert. Þjóðfélagið horfir aðgerðalaust á að þessar virðulegu stofnanir nýta sér sjúkleika fólks á þennan hátt.

[11:30]

Það má í rauninni segja að það séu tveir aðilar sem hafi ánetjast spilakössum. Annars vegar þeir sem eru háðir þeim og spila í spilavítunum og síðan hinir sem hafa tekjurnar af þeim. Þeir eru einnig háðir þessum spilakössum. Ég hef verið með hugmyndir um það að háskólinn merki spilavítin einstökum deildum háskólans. Þannig fái t.d. Siðfræðistofnun Hlemm, hún gæti fengið Hlemm og fjármagnað sig með Hlemmi, guðfræðideildin gæti fengið Skólavörðustíginn, þannig að þeir sem skipta við kassana viti hverja þeir eru að styrkja, að þeir eru að styrkja guðfræðideildina eða Siðfræðistofnun. Hvers á þá lögfræðideildin að gjalda? kynni einhver að spyrja. Jú, hún gæti fengið einhverja gullnámuna. Gullnámuna, kalla þeir þetta. Náman eru vasarnir á sjúku fólki sem haldið er spilafíkn. Og mér finnst, herra forseti, ekki hægt að afgreiða þessi mál án þess að taka þá hlið, þennan þátt einnig til umræðu og skoðunar.

Það hafa endrum og eins verið skrifaðar ágætar greinar um þetta mál, og ég leyfi mér að vitna m.a. í grein sem Sigtryggur Jónsson sálfræðingur birti í Morgunblaðinu 19. maí árið 2001, en þar segist hann sakna af hálfu aðstandenda spilakassanna, og nú vitna ég beint til ummæla hans, með leyfi forseta: ,,umræðunnar um það hvers konar lífi sá lifir, sem haldinn er spilaáráttu, hvernig löngun hans til að spila getur orðið óviðráðanleg, hve skömmin, lygin og sviksemin við nánustu vini og ættingja er stöðugur fylgifiskur, hve afneitunin á eigin vanda er alger, hve trúin á það að geta bætt fjárhagsstöðuna er staðföst. Eða hve angistin, depurðin, kvíðinn og sjálfsvígshugmyndin er daglegur förunautur þeirra, sem lengst og dýpst eru sokknir og hve mörg sjálfsvíg má beinlínis rekja til spilaskulda, sem skipta tugum milljóna króna hjá einum og sama spilaranum``.

Hvorki ég né Sigtryggur Jónsson erum einir um að spyrja um ábyrgð aðstandenda spilakassanna því í leiðara Morgunblaðsins, 3. apríl árið 2001, var til að mynda spurt, og hér vitna ég orðrétt, með leyfi forseta, ,,hvort þau samtök, sem um ræðir, telji sér sæmandi að afla fjár með rekstri fjárhættuspila``.

Þótt háskólinn ætti ekki hlut að máli á sínum tíma --- það voru söfnunarkassarnir, Íslandsspil, heita þeir það ekki núna? --- þá gerðist það fyrir nokkrum árum að þeir buðu sérfræðingi, svokölluðum, í spilafíkn til landsins. Þetta var prófessor frá spilavítum í Las Vegas og Reno í Arizona í Bandaríkjunum. Þessi maður heitir Stowe Shoemaker og hann var kynntur sem háskólakennari í þessum fræðum, og hann réttlætti spilavíti yfir súpuverði á Grand Hótel, þar sem ég hlýddi meðal annarra á ræðu hans, og hlaut að launum dynjandi lófatak frá hagsmunaaðilum sem voru mættir til staðar.

Það hefur aðeins þokast í áttina. Komið hefur verið upp hjálparlínu t.d. á vegum þessara kassa og það er til komið vegna þrýstings frá fólki sem er að berjast gegn þessum ófögnuði. En ég vil minna á það að iðulega fyrir jólin hafa komið fram mótmæli, varnaðarorð og mótmæli frá aðstandendum spilafíkla um að slíkir staðir verði lokaðir í desembermánuði. Á það hefur aldrei verið hlustað.

En ég vil vekja athygli á annarri ályktun sem kom. Það var upphafi þessa árs. Þá ályktuðu áhugamenn gegn spilafíkn og beindu þeirri áskorun til aðstandenda spilakassa að stigið yrði það skref, og nú vitna ég orðrétt í ályktun áhugamanna gegn spilafíkn, með leyfi forseta, ,,að banna spilavélar í sjoppum, veitingastöðum og annars staðar þar sem ætla má að unglingar hafi aðgengi að vélunum``.

Á þeim tíma, þetta mun hafa verið í febrúar fyrr á þessu ári, var spurt hvort aðstandendur spilakassanna væru tilbúnir að verða við slíkum kröfum áhugamanna gegn spilafíkn, að takmarka aðgengi unglinga að þessum kössum og að þeir yrðu fjarlægðar úr sjoppum og matsölustöðum og annars staðar þar sem ætla mætti að unglingar hefðu aðgengi að vélunum. Engin svör, engin viðbrögð. Fullkomið ábyrgðarleysi.

Herra forseti. Þetta eru spurningar sem vakna í mínum huga þegar óskað er eftir því að Háskóli Íslands fái leyfi til áframhaldandi einkaleyfis á happdrætti. Ég fyrir mitt leyti geri mikinn greinarmun á Happdrætti Háskóla Íslands annars vegar og hins vegar spilavítisvélum, ég tala nú ekki um Gullnámuna sem er sérstaklega hönnuð til að æsa upp fíknina með fólki. Ég geri mikinn greinarmun á þessu tvennu, Happdrætti Háskóla Íslands sem ég styð og er fylgjandi því að veita háskólanum áframhaldandi einkaleyfi. Ég er enn að hugleiða tímasetningarnar, hve lengi eigi að gera það fram í tímann með hliðsjón af því að hugmyndin er sú að setja niður nefnd sem skoði þau mál til framtíðar, en þessu er ég almennt velviljaður. Fólk hefur almennt tekið þátt í happdrætti Háskóla Íslands til að styðja við bakið á háskólanum og uppbyggingu þar. Ég er svo sannarlega í þeim hópi. Ég er einnig á því að styðja við bakið á þjóðþrifastofnunum eins og Slysavarnafélaginu Landsbjörg, sem á allan minn stuðning, SÁÁ, sem vinna mjög gott starf, Rauða krossinum, sem vinnur prýðilegt starf líka. Þessar stofnanir eiga minn stuðning, að þessu undanskildu. Ég og hópur fólks innan þings sem utan, þetta er þverpólitískt mál, þetta hefur ekkert með flokkapólitík að gera, við styðjum þessar stofnanir og viljum leita leiða til að tryggja þeim aðra tekjustofna en höfnum því algerlega að gera sér að féþúfu veikt fólk. Það er fullkomlega siðlaust. Og ég sakna þess að heyra engin viðbrögð, hvorki frá aðstandendum spilavítanna né stjórnvöldum, en ég kalla eftir viðbrögðum frá báðum þessum aðilum.