Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 11:43:03 (2757)

2003-12-05 11:43:03# 130. lþ. 43.9 fundur 191. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# (meðferð hlutafjár) frv. 129/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[11:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Eins og kom fram í máli hv. flm. nál., Birgis Ármannssonar, stend ég ekki að þessu áliti en afstaða mín í þeim efnum helgast af því að hér séu kannski ekki þau tilefni til staðar sem látið hefur verið liggja að með þessari aðgerð, að færa forsjá hlutabréfs ríkisins í Landssíma Íslands úr höndum fagráðherrans, samgrh., og í hendur hæstv. fjmrh. Ég hef sem sagt efasemdir um það að hér liggi þau faglegu rök að baki sem talað hefur verið um. Mér finnst ekki endilega sjálfgefið að eignir og verðmæti ríkisins séu alfarið í umsýslu hæstv. fjmrh., enda er það ekki svo að öllu leyti. Það eru ýmsir fagráðherrar sem hafa vörslu eigna ríkisins með höndum og ég held að það þurfi ekki að vera slæmt að fagráðherra, í þessu tilfelli samgrh. sem þekkir og gerir sér grein fyrir þörfum þjóðarinnar varðandi fjarskipti í landinu, hafi með umsýslu þessara hluta að gera.

En hvað liggur hér að baki? Það hefur verið látið í veðri vaka að aðeins sé um einhverja einfalda tæknilega afgreiðslu að ræða og þingmenn stjórnarmeirihlutans hafa í raun og veru gert sáralítið úr þessu máli eins og umræðan og þetta nál. gefur til kynna. En í mínum augum er hér verið að undirbúa sölu Landssíma Íslands hf., sölu sem einu sinni var haldið fram úr þessum stóli að stæði ekki til að færi fram. En nú veit alþjóð að þær yfirlýsingar voru innihaldslausar því þegar hafa verið gerðar afskaplega klaufalegar og raunar misheppnaðar tilraunir til þess að selja Landssímann en ríkisstjórninni tókst ekki það ætlunarverk sitt á sínum tíma, en nú verða gerðar tilraunir að öllum líkindum til þess að reyna á nýjan leik. Menn segja að nú sé markaðsumhverfi hagstæðara, og við vitum öll hvað stendur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, þar er það alveg ljóst að ríkisstjórnin stefnir að því að selja hlut íslenska ríkisins, þjóðarinnar, í þessu þjóðarfyrirtæki.

[11:45]

En er það vilji Alþingis, virðulegi forseti, að sala þessi sé undirbúin svo hægt og hljótt sem hér er gert? Ég tel rétt að reyna í öllu falli að vekja athygli þjóðarinnar á því sem hér er í undirbúningi vegna þess að ég tel að þjóðin eigi að taka ákvarðanir af þessu tagi. Við getum núna, við afgreiðslu þessa máls, skoðað grundvallaratriði málsins en það er ekki víst að okkur gefist annað tækifæri til þess. Heimild ríkisstjórnarinnar er eins og allir vita þegar til staðar. Hún er fengin í þeim lögum sem hér er verið að breyta, lögum um sölu ríkissjóðs á hlutafé Landssíma Íslands hf.

Hvenær ætla svo ráðamenn þjóðarinnar að bregðast við þeim athugasemdum sem hafa verið gerðar varðandi þessi mál um hina náttúrlegu einokun á sviði fjarskipta í landinu og svara þeim áleitnu spurningum sem lúta að framtíðarfjarskiptaumhverfi á Íslandi? Hvenær ætlum við að ræða jöfnun á möguleikum fólks á að njóta góðra og öflugra fjarskipta? Það sjá allir í hendi sér að slíkt yrði ekki til staðar eftir einkavæðingu þessa fyrirtækis. Við vitum líka að undir fjarskipti heyra gervihnattasamskiptin okkar. Er verið að tala um að einkavæða þau? Hvað er fólgið í grunnneti Landssímans sem Samf. hefur látið í veðri vaka að hún sé ekki sátt við að verði selt? Af hverju erum við ekki að ræða þessi grundvallaratriði málsins? Af hverju látum við bjóða okkur að hér sé talað um að einungis sé um tæknilega tilfærslu að ræða á eignum ríkisins, þ.e. flutningi hlutabréfsins úr skrifstofu hæstv. samgrh. yfir á skrifstofu hæstv. fjmrh.? Þetta eru meginástæðurnar fyrir því að ég hefði viljað fara ofan í grundvallaratriði málsins við þessa umræðu og tel fulla ástæðu til. Ég tel ekki rétt að undirbúa söluna á þessu þjóðarfyrirtæki, Landssíma Íslands, með þeim hætti sem hér er gert.