Lánasjóður íslenskra námsmanna

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 12:05:43 (2761)

2003-12-05 12:05:43# 130. lþ. 43.10 fundur 314. mál: #A Lánasjóður íslenskra námsmanna# (búseta, EES-reglur) frv., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[12:05]

Björgvin G. Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér er ekki tilefni til að orðlengja mjög um það frv. sem hér liggur fyrir annað en að gera tilurð þess að umtalsefni.

Eins og fram kom í máli hæstv. menntmrh. var tilefnið það að umboðsmaður Alþingis skrifaði álit er varðaði rétt námsmanns frá Finnlandi til lántöku úr Lánasjóði íslenskra námsmanna en viðkomandi námsmaður frá Finnlandi þurfti að leita sérstaklega réttar síns sem íbúa á EES-svæðinu til að taka námslán á Íslandi í starfstengdu námi. Eftir umrædd bréfaskipti við ráðuneytið og eftir að ESA hafði skilað inn afstöðu sinni var ljóst að íslensk stjórnvöld voru að brjóta á rétti námsmanna af EES-svæðinu með því að veita þeim ekki námslán.

Það er í sjálfu sér dapurlegt að til þurfi að koma tilskipanir frá Evrópudómstólnum til að við færum lög okkar og reglur til jafnsjálfsagðra hluta og þessara, enda er ekki um að ræða mikinn kostnað eins og fram kemur í umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. Meðallánin eru um 0,8 milljónir á ári og þrjú ár er algengur námstími. Stærðargráðan er því ákaflega lítil. Það er verið að tala um að kostnaður ríkisins sé á bilinu 3--5 millj. kr. til að við uppfyllum þessar skuldbindingar okkar í gegnum EES-samninginn. Enda felur frv. í sér samræmingu á rétti íslenskra ríkisborgara og annarra íbúa á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt núgildandi lögum þurfa hinir síðarnefndu að hafa átt lögheimili hér á landi í eitt ár áður en námið hefst. Eins og fram kemur í þessu mati er kostnaðurinn óverulegur.

Rétt er að taka fram að það er ágætt að þetta skuli hafa komið fram að lokum í ljósi afstöðu ESA. Þetta varðar mikilvæg réttindi í samstarfslöndum okkar á Evrópska efnahagssvæðinu til að stunda starfstengt nám, enda skilyrt við búsetu til tveggja ára samfleytt, eða þriggja ára af tíu.

Ég ætla hins vegar ekki að hafa fleiri orð um þetta mál að sinni, herra forseti.