Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 13:47:20 (2766)

2003-12-05 13:47:20# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., EMS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[13:47]

Einar Már Sigurðarson (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þá er komið að lokaatkvæðagreiðslu um fjárlög fyrir árið 2004, fjárlög sem væntanlega verða í framtíðinni kölluð fjárlög svikanna því þetta eru fyrstu fjárlög ríkisstjórnar eftir kosningar þegar lofað var að standa við samning við Öryrkjabandalag Íslands, þegar lofað var að lækka skatta, þegar lofað var að hækka húsnæðislán. Efndirnar eru allar aðrar. Það á að svíkja samninginn við Öryrkjabandalagið. Það á að hækka skatta í stað þess að lækka þá og það á að lækka vaxtabætur í stað þess að hækka húsnæðislán.

Herra forseti. Enn á ný fer fjöldi stofnana í óvissu inn í næsta ár. Nýjustu fréttir í hádeginu í dag um Landspítala -- háskólasjúkrahús segja það sem segja þarf um hvernig búið er að ýmsum stofnunum í samfélaginu. Enn á ný verða fjárlög væntanlega afgreidd eins og við höfum séð mörg undanfarin ár þannig að með vissu má segja að í fjáraukalögum næsta árs verði tekið á þeim vanda sem við blasir. Það er ekki aðeins í heilbrigðiskerfinu. Það er einnig í menntakerfinu. Þannig er staðan gagnvart Háskóla Íslands að ef ekki verður neitt gert fyrr en næsta haust í málefnum skólans þá verður skólinn að vísa frá 900 nýnemum. Það er ég viss um að er ekki vilji þingheims. Þess vegna mun væntanlega verða tekið á því máli í fjáraukalögum næsta árs. Þetta eru slæm skilaboð, herra forseti. Það á að taka mark á fjárlögum. Það á ekki að hafa platfjárlög eins og núverandi ríkisstjórn hefur vanið sig á.