Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 13:50:48 (2768)

2003-12-05 13:50:48# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JBjarn (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[13:50]

Jón Bjarnason (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fjárlög fyrir árið 2004 koma hér til lokaafgreiðslu. Þau bera fyrst og fremst vitni svikinna kosningaloforða. Aðhaldsaðgerðir bitna fyrst og fremst á þeim sem síst skyldi, á barnafólki, sjúklingum, öryrkjum, atvinnulausum og öðrum sem hafa lægsta tekjur.

Eina skattbreytingin sem gerð er er lækkun hátekjuskattsins. Hlutfallsleg skattbyrði þeirra sem lægstar hafa tekjurnar eykst. Þetta er andstætt stefnu Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill að skattheimtunni sé hagað þannig að aflað sé nægilegra tekna til að standa undir öflugu velferðarkerfi, en það sé tekið með sanngjörnum hætti og þeir borgi mest sem hafa breiðust bökin til að greiða.

Ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. sem nú situr, situr í skjóli svikinna kosningaloforða. Lofað var tuga milljarða skattalækkunum, 90% húsnæðislánum, línuívilnun til bátaflotans og jarðgöngum svo nokkuð sé nefnt. Skerðing á réttindum atvinnulausra, hækkun á komugjöldum og hlut sjúklinga í lyfjakostnaði voru ekki meðal kosningaloforða Framsfl. En þau eru nú að verða staðreynd.

Vinstri hreyfingin -- grænt framboð skorar á stjórnarflokkana að standa a.m.k. við eitt kosningaloforð en það er að efna að fullu samkomulagið sem gert var við Öryrkjabandalagið.

Frv. kemur nú til lokaafgreiðslu. Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði höfum lagt fram nokkrar tillögur við 3. umr. til þess að rétta stærstu ágalla frv. Ég skora á hv. þingmenn að greiða þeim tillögum atkvæði. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs munum greiða þeim tillögum sem hér eru á dagskrá atkvæði ef þær eru til bóta og bæta niðurstöður fjárlagafrv. Við munum leggjast gegn tillögum sem ganga móti stefnu okkar. Við lokaafgreiðslu fjárlagafrv. munum við sitja hjá og vísa allri ábyrgð á frv. á ríkisstjórnina og meiri hlutann á Alþingi.