Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 14:39:54 (2802)

2003-12-05 14:39:54# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., JGunn (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Jón Gunnarsson:

Virðulegi forseti. Hitaveita Suðurnesja er stórt og öflugt hlutafélag þar sem ríkissjóður á 15,5% hlut. Nafnvirði þessa hlutar er nú 1.133 millj. kr. Söluverð ætti að vera talsvert hærra en ríkissjóður hefur ekki lagt fyrirtækinu til háar upphæðir í stofnfé og eigið fé fyrirtækisins hefur byggst upp í viðskiptum þess við íbúa og fyrirtæki á Suðurnesjum.

Nú eru blikur á lofti í atvinnumálum svæðisins og alveg ljóst að grípa þarf til mótvægisaðgerða. Því er lagt til að ríkið fái þessa heimild til að selja hlut sinn í fyrirtækinu og andvirðinu verði varið til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum.

Fordæmi eru fyrir slíkri ráðstöfun hjá núverandi ríkisstjórn og vandséð er hvers vegna stjórnarliðar greiða atkvæði gegn tillögunni. Kannski er það vegna þess að tillagan er komin frá stjórnarandstöðu. Ég skora hins vegar á þá sem eiga eftir að greiða atkvæði að styðja þetta mál og segi já. (Landbrh.: Þú hefur stolið málinu og eyðilagt það.)