Fjárlög 2004

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 14:51:01 (2809)

2003-12-05 14:51:01# 130. lþ. 43.2 fundur 1. mál: #A fjárlög 2004# frv., ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[14:51]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs getur ekki stutt þetta fjárlagafrv. þegar það kemur nú til lokaafgreiðslu í heild sinni. Að sjálfsögðu er að finna sitthvað í frv. sem horfir til framfara, mál sem við höfum stutt. En það verður ekki sagt um frv. í heild sinni. Stefna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs er að stórefla menningar- og velferðarstofnanir landsins og stuðla að auknum jöfnuði í landinu.

Samkvæmt þessu fjárlagafrv. er tilfærsla til heimilanna lækkuð um rúma 2 milljarða. Þar af eru vaxtabætur lækkaðar um 600 millj. Lífeyriskjör eru rýrð um mörg hundruð millj. kr. Atvinnuleysisbætur eru lækkaðar um 170 millj. Sjúkratryggingar eru lækkaðar um 740 millj. með auknum álögum á sjúklinga og síðast en ekki síst eru hafðar rúmar 500 millj. af öryrkjum vegna samningsrofa.

Herra forseti. Fjárlagafrv. skilur margar mikilvægar stofnanir í samfélaginu í lausu lofti, sumar með langan skuldahala, aðrar í (Forseti hringir.) sárri fjárþörf. Þetta á við um menntastofnanir og sjúkrastofnanir. Gagnvart heimilum í (Forseti hringir.) landinu og gagnvart þessum velferðarstofnunum er þetta fjárlagafrv. í senn ranglátt og ábyrgðarlaust.