Tímabundin ráðning starfsmanna

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:06:04 (2813)

2003-12-05 15:06:04# 130. lþ. 43.14 fundur 410. mál: #A tímabundin ráðning starfsmanna# (EES-reglur) frv. 139/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta frv. er um sumt byggt á málamiðlunum. Fram hafa farið viðræður á milli ráðuneytisins og samtaka launafólks sem frv. tekur til. Það má gjarnan koma fram að ráðuneytið hefur verið reiðubúið að taka tillit til ýmissa sjónarmiða sem fram hafa komið af hálfu launafólks og er það þakkarvert. Það er í sjálfu sér ekkert annað en eðlilegur hlutur, en ekki er alltaf hægt að ganga að slíku sem vísu.

Nú verður málinu vísað til nefndar og fær þá væntanlega ítarlega yfirferð. Ég ítreka að um sumt byggir málið á málamiðlun. Ég tel að það hafi tekið miklum breytingum til góðs frá því það fæddist og ástæða er til að það komi fram nú við 1. umr.