Starfsmenn í hlutastörfum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:15:47 (2816)

2003-12-05 15:15:47# 130. lþ. 43.15 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:15]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er fjallað um frv. til laga um starfsmenn í hlutastörfum. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra gildir ekki sama sátt um þetta frv. og fyrra frumvarpið sem hér var rætt, um tímabundnar ráðningar. Ráðuneytið hefur leitað eftir sjónarmiðum samtaka launafólks og því miður hefur ekki tekist að tryggja slíka sátt. Ég vil vekja athygli á því að BSRB hefur innan sinna vébanda stærstan hóp ríkisstarfsmanna og það er ekki búið að ná samkomulagi við bandalagið um þetta frv. Í stuttu máli snýst ágreiningurinn um það að lögin taka ekki til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga sem á grundvelli hlutlægra ástæðna, eins og það er orðað í frumvarpinu, fá greitt tímavinnukaup, tekur sem sagt ekki til tímavinnukaups hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga.

BSRB hefur verið ósammála því að tímakaupsstarfsmenn sem koma inn á stofnanir til að vinna í tímavinnu, fá ekki að njóta sama starfsumhverfis og aðrir starfsmenn. Í viðræðum sem fram fóru í sumar um þessi efni var lagt til af hálfu samtakanna að inn í 2. gr. frv. sem skilgreinir gildissviðið yrði sett takmarkandi ákvæði svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Lögin taka ekki til tímavinnufólks sem hefur annað aðalstarf, eða hefur aðalframfærslu sína af lífeyrisgreiðslum.``

Með öðrum orðum, að fallist yrði á með þessu að tímavinnufólk hjá hinu opinbera yrði undanskilið lögunum, aðrir en sá hópur sem hefur þetta að aðalstarfi. Þessa setningu leggjum við samtök launafólks, og ég leyfi mér að tala í nafni þeirra nú, áherslu á að verði sett inn í lögin. Þetta frv. á væntanlega eftir að fá rækilega umfjöllun og skoðun í félmn. þingsins og ég vænti þess að þar verði farið vel yfir þau sjónarmið sem ég er að vekja máls á. Það kunna að vera aðrir agnúar á þessu eða atriði sem ekki ríkir fullt samkomulag um, en ég vona að okkur takist að færa þetta inn í svipaðan farveg samstarfs og hefur tekist í ýmsum öðrum málum sem fram hafa komið frá félmrn. í seinni tíð.