Eldi nytjastofna sjávar

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:36:11 (2827)

2003-12-05 15:36:11# 130. lþ. 43.11 fundur 344. mál: #A eldi nytjastofna sjávar# (erfðablöndun) frv., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held ekki að ég og hæstv. landbrh. séum að fara eins mikið hvor í sína áttina eins og hv. þm. vill vera láta. Ég held að hæstv. landbrh. hafi verið að reyna að ná sömu markmiðum og ég en hann hafði bara annan upphafspunkt þegar hann hóf sína ferð. Það er hins vegar rétt að það er gengið út frá verndunarsjónarmiðum í þessu frv. til þess að koma í veg fyrir slys varðandi erfðablöndun á nytjastofnum okkar, sérstaklega ef tilfellið væri að það væru mismunandi stofnar á mismunandi svæðum í kringum landið og að þeir hefðu þá mismunandi eiginleika sem skiptu okkur máli. Í tveimur samliggjandi fjörðum gætu mismunandi stofnar gengið út, annar út og í norður í fæðuleit og í hinum firðinum hinn út og í suður í fæðuleit og ef það væri komið með þriðja og þá jafnvel fjórða stofninn til eldis í þessum firði gæti það haft áhrif á þessa stofna, erfðamengi þeirra breyst og þar með ýmsir eiginleikar þeirra sem nytjastofna sem gætu haft skaðleg áhrif fyrir fiskveiðarnar og fyrir hagkerfið.

Ég verð að viðurkenna að ég var ekki með samninginn um líffræðilegan fjölbreytileika við hliðina á mér þegar ég samdi frv. þannig að ég get kannski ekki alveg státað af því að ég hafi byggt á honum sérstaklega en ég ímynda mér að sama sjónarmið komi þar fram og það sem ég hef í huga við framlagningu þessa frv. Ég þakka fyrir góðar undirtektir og vona að málið fá skjóta afgreiðslu.