Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:39:22 (2829)

2003-12-05 15:39:22# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, Flm. DrH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:39]

Flm. (Drífa Hjartardóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Flutningsmenn eru Drífa Hjartardóttir, Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Jón Bjarnason, Guðmundur Hallvarðsson og Dagný Jónsdóttir.

Skv. 1. gr. bætist ný málsgrein við 39. gr. laganna sem verður 4. mgr., svohljóðandi:

Landbúnaðarráðherra er heimilt að gera samninga við sauðfjárbændur, sem hafa náð eða ná 64 ára aldri á tímabilinu 2004--2007, um að eiga hvorki né halda sauðfé til og með 31. desember 2007 en halda óskertum beingreiðslum á sama tíma á meðan greiðslumark sauðfjár er í eigu hlutaðeigandi bænda og áfram skráð á lögbýli. Þeim er þó heimilt að halda eftir allt að tíu vetrarfóðruðum kindum, enda séu afurðir þeirra til eigin nota. Ráðherra er jafnframt heimilt að kveða svo á um í samningunum að þeir bændur sem hyggjast hefja sauðfjárrækt að nýju megi koma sér upp bústofni frá 1. september 2007. Samningunum skal þinglýst sem kvöðum á viðkomandi lögbýli sem gilda til 31. desember 2007. Verði eigendaskipti að greiðslumarki eða lögbýli fellur samningurinn niður og hin þinglýsta kvöð.

Skv. 2. gr. öðlast lög þessi gildi 1. janúar 2004.

Hæstv. forseti. Hinn 3. september 2003 skipaði landbúnaðarráðherra nefnd sem falið var það verkefni að fjalla um og meta vandann sem steðjar að sauðfjárbændum vegna verulegs tekjusamdráttar. Jafnframt var nefndinni falið að gera tillögur til stjórnvalda um hvernig bregðast skuli við þeim vanda. Í tillögum og niðurstöðum nefndarinnar til landbúnaðarráðherra frá 5. nóvember 2003 er að finna umfjöllun um ástæður fyrir tekjusamdrætti sem orðið hefur hjá sauðfjárbændum, m.a. vegna lækkunar á verði innan lands, breytinga á útflutningshlutfalli og ójafnvægis í birgðastöðu, en einnig eru þar tillögur um ýmsar úrbætur. Meðal annars lagði nefndin til að þeir sauðfjárbændur sem náð hafa 63 ára aldri geti haldið óskertum beingreiðslum til loka núgildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, þ.e. til ársloka 2007, án skyldu um sauðfjáreign samkvæmt sérstöku samkomulagi þar um, enda eiga þeir þá rétt til ellilífeyrisgreiðslna samkvæmt lögum um almannatryggingar. Markmiðið er að hvetja þessa bændur til að fækka fé og minnka framleiðsluna en með því er talið að unnt verði að koma betra jafnvægi á kindakjötsmarkaðinn og hækka verð á kindakjöti til annarra bænda.

Samkvæmt lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, er hins vegar kveðið á um hvaða skilyrði sauðfjárbændur þurfa að uppfylla til að hljóta óskertar beingreiðslur. Meginreglan er skv. 39. gr. laganna að sauðfjárbændur þurfi að eiga 0,6 vetrarfóðraðar kindur á hvert ærgildi greiðslumarks til að hljóta fullar beingreiðslur árið 2001 en eftir það ákveði landbúnaðarráðherra ásetningshlutfall á hverju ári að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamnings. Ráðherra er heimilt að víkja frá meginreglunni og ákveða lægra ásetningshlutfall að fenginni umsögn Landgræðslu ríkisins og/eða Skógræktar ríkisins ef búfjárbeit kemur í veg fyrir eðlilega framkvæmd uppgræðslu eða veldur of miklu álagi á beitiland. Einnig má víkja frá ásetningshlutfallinu hjá framleiðendum sem hafa skorið niður fé til útrýmingar sjúkdómum. Framangreind ákvæði laganna eru í samræmi við ákvæði samnings um framleiðslu sauðfjárafurða, dags. 11. mars 2000. Þar sem heimildir landbúnaðarráðherra til að veita undanþágur frá ásetningshlutfalli því sem áskilið er í 39. gr. eru þar tæmandi taldar er nauðsynlegt að breyta ákvæðinu til að hrinda í framkvæmd framangreindri tillögu um vanda sauðfjárbænda.

Hér er því lögð til sú breyting á 39. gr. laganna að landbúnaðarráðherra verði heimilt að gera samninga við bændur sem náð hafa eða ná 64 ára aldri á tímabilinu 2004--2007 eða eru fæddir á árinu 1940 um að eiga hvorki né halda sauðfé til ársloka 2007 gegn því að þeir haldi beingreiðslum á sama tíma. Í ákvæðinu felst að þeim er ekki heldur heimilt að halda og/eða fóðra sauðfé fyrir aðra á lögbýlum sínum. Þeim er þó heimilt að halda eftir allt að tíu vetrarfóðruðum kindum enda séu afurðir þeirra aðeins til eigin nota. Til að gæta jafnræðis þykir rétt að miða við aldursmarkið 64 ára eða eldri á tímabilinu þó að innan þess hóps muni ekki allir ná lífeyrisaldri samkvæmt lögum um almannatryggingar í lok tímabilsins frekar en að draga mörkin við þá sem ná 67 ára aldri árið 2004. Ákvæði þetta og þau skilyrði sem það hefur að öðru leyti að geyma eru sambærileg við skilyrði um fjárleysi sem sett hafa verið í samninga ríkissjóðs um kaup á greiðslumarki sauðfjár, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga nr. 99/1993 og reglugerð nr. 399/2000, um kaup ríkissjóðs á greiðslumarki sauðfjár. Þá þykir rétt að kveða á um að landbúnaðarráðherra sé heimilt að kveða á um að þeim sauðfjárbændum sem ætla að hefja sauðfjárrækt að nýju sé heimilt að koma sér upp bústofni frá 1. september 2007 ef þeir hyggjast hefja framleiðslu að nýju á árinu 2008.

Hæstv. forseti. Greiðslumark sauðfjár er samkvæmt lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum bundið við lögbýli og er þess vegna nauðsynlegt að þinglýsa samningnum sem kvöð á viðkomandi lögbýli sem gilda skal til 31. desember 2007. Rétt þykir að miða við að selji þeir bændur sem gert hafa samninga samkvæmt þessu ákvæði greiðslumark sauðfjár af lögbýli falli niður réttur þeirra til beingreiðslna eftir það ásamt hinni þinglýstu kvöð enda þótt beingreiðslur sem greiddar eru á grundvelli greiðslumarks sauðfjár séu ekki framleiðslutengdar. Sama gildir ef þeir selja jarðirnar ásamt greiðslumarkinu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir því að málinu verði vísað til hv. landbn.