Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:47:08 (2830)

2003-12-05 15:47:08# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:47]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Eins og hv. framsögumaður gerði grein fyrir er þetta frv. flutt í framhaldi af tillögum sem samþykktar voru í ríkisstjórninni til að koma til móts við sauðfjárbændur. Ég hef leyft mér að halda því fram að lítið væri horft til framtíðar í þeim samningi. Þetta mál er að vísu að ýmsu leyti jákvæðara en þeir hlutir almennt sem voru í honum, að mér finnst. En á þessari aðferð er að mér finnst verulega mikill galli.

Ég hef haldið því fram að hið opinbera ætti að gefa bændum í sveitum landsins kost á að fá stuðning áfram og nota þann stuðning til atvinnurekstrar í greinum sem gæfu þeim betra framfæri en verið hefur af sauðfjárræktinni. Það mætti gera með svipuðum hætti og hér er sett fram, að menn þurfi ekki að framleiða til að fá þennan stuðning um tiltekinn tíma.

En hér er í raun ekki gert annað en að bjóða þeim sem vilja fara á eftirlaun og hætta búskap að flýta því með þessum hætti. Jafnframt er sagt að hefji þeir búskap aftur eftir þetta tímabil þá hafi í raun ekkert breyst í aðstæðum þeirra og högum gagnvart ríkinu. Af því að þetta er öðrum þræði eftirlaunasamningur eða starfslokasamningur við bændur, sem er þó þessu marki brenndur, þá datt mér nú í hug að gaman væri að rifja upp vísu sem Þórður á Dagverðará, sem allir landsmenn þekkja, fór oft með þegar hann var spurður að því af hverju hann héldi sér svona vel.

Vísan er svona, með leyfi hæstv. forseta:

  • Fátt er ungum manni um megn,
  • magnaður lífsins galdur.
  • Ellina klár ég komst í gegn
  • og kominn á besta aldur.
  • Þannig virðist mér að menn líti á, að eftir þetta tímabil í lífi sínu geti bændur hafið búskap aftur af fullum krafti og allt í lagi með það. En þetta var meira til gamans.

    Mér er hins vegar ekkert gaman í hug þegar ég held því hiklaust fram að stefna stjórnvalda sé í raun og veru fólgin í því að segja við bændur landsins, hvort sem þeir framleiða mjólk eða kindakjöt, að þeir skuli sko framleiða mjólk eða kindakjöt ætli þeir að vænta stuðnings frá ríkinu, annars fái þeir engan. Þessi stefna er ófæra. Hún hefur komið illa niður á sauðfjárbændum, sérstaklega síðustu árin. Þessari stefnu verða menn að hverfa frá. Í þessu frv. er ekki verið að leita nýrra leiða hvað það varðar.

    Ef þetta hefði hins vegar gengið út á að segja við alla bændur: Þið getið fengið þennan stuðning áfram það tímabil sem hér um ræðir. Á því tímabili yrði farið yfir með hvaða hætti koma megi til móts við bændur vegna annars atvinnurekstrar í dreifbýlinu þannig að þeir gætu átt stuðning vísan til annars í framtíðinni. Þá væru menn að byggja upp eitthvað jákvætt. En þarna er um heldur slaklegan starfslokasamning, á alla mælikvarða, að ræða og ekki nein framtíðarlausn fólgin í því sem hér er á ferðinni.

    Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu, hæstv. forseti.