Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:51:31 (2831)

2003-12-05 15:51:31# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, Flm. DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:51]

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var ekki við því að búast að hv. þm. Jóhann Ársælsson væri ánægður með þetta enda hef ég ekki heyrt hann tala jákvætt til landbúnaðarins yfirleitt. Hann sagði að hér væri lítið horft til framtíðar, að nefndin sem hefði um þetta mál fjallað hefði lítið horft til framtíðar.

Ætlunin var að taka á bráðavanda sem er hjá sauðfjárbændum um þessar mundir. Það sem ég tel afar mikilvægt var samþykkt einnar af tillögum nefndarinnar, að opna fyrir samninginn sem nú er í gildi, gera annaðhvort alfarið nýjan samning eða að hluta til. Þar tel ég mikil sóknarfæri með því að fara þá leið sem hv. þm. talaði um, að gera þá samninga við fleiri bændur.

Það er ekki að ástæðulausu að miðað er við þennan aldur. Eins og fram kom í máli mínu áðan eru menn, eftir þessi fjögur ár, komnir á lífeyrisgreiðslur. Þetta er líka gert til að bændur hafi þann möguleika að hætta án þess að selja frá sér réttinn og rýra þar með verðgildi jarðanna. En það er enginn skuldbundinn til að ganga að þessum samningi, hann er algjörlega frjáls. Mönnum er frjálst að gera hann ef þeir vilja.

Hv. þm. talaði um að lítið væri gert til þess að hjálpa bændum að koma sér upp öðrum störfum. Ég vil benda á að Framleiðnisjóður hefur stutt margs konar nýja atvinnustarfsemi dyggilega, til að mynda ferðaþjónustuna. Mjög margir bændur hafa hætt hefðbundnum búskap og farið í ferðaþjónustu.