Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:53:46 (2832)

2003-12-05 15:53:46# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:53]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. taldi ekki við því að búast að ég mundi tala jákvætt um þetta mál. Nei, það er ekki við því að búast að ég tali jákvætt um þá stefnu sem tekin hefur verið. Ég er hins vegar fullkomlega tilbúinn að styðja það að atvinnulíf í sveitum landsins sé styrkt. Ég hef aldrei talað fyrir því að draga úr stuðningi við atvinnulíf í sveitum og dreifbýli.

Ég hef hins vegar margoft haldið því fram að ekki væri rétt að þeim málum staðið. Þar er ekki jafnræðis gætt. Þar fá hvorki þeir sem vilja hefja búskap né fólk sem vill stunda í sveitum annan atvinnurekstur en þessar tvær búgreinar að njóta jafnræðis við þá sem fyrir eru í gömlu búgreinunum. Þessu hef ég haldið fram. Ef mönnum finnst að ég sé þar með að tala neikvætt um atvinnulíf í sveitum þá verða menn auðvitað að fá að hafa þá skoðun.

Ég ætla ekki að gera neitt lítið úr því sem Framleiðnisjóður hefur getað gert fyrir þá sem hafa sótt þar um lánafyrirgreiðslu fyrir ferðaþjónustu eða annað slíkt. En ég held því fram að sá stuðningur sem hefur verið frá ríkinu við gömlu búgreinarnar tvær gæti að hluta verið miklu betur kominn sem stuðningur við aðra framleiðslu. Það er ekki við það búandi að endalaust sé verið að stilla mönnum upp að vegg í landbúnaði eins og gert er, að ríkið segi með sínum reglum: Þið skuluð halda áfram að framleiða kindakjöt ef þið ætlið að fá stuðning frá ríkinu.