Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Föstudaginn 05. desember 2003, kl. 15:55:38 (2833)

2003-12-05 15:55:38# 130. lþ. 43.16 fundur 417. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárbændur) frv. 131/2003, Flm. DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 43. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Flm. (Drífa Hjartardóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi hreinlega misskilið allt málið. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að bændur geti haldið beingreiðslunum án þess að framleiða. Þar liggur hundurinn grafinn.

Hv. þm. talaði einnig um að Framleiðnisjóður væri með lán en Framleiðnisjóður er einnig með styrki. Sjóðurinn veitir bændum eða því fólki sem býr á lögbýlum styrki til að koma sér upp annarri starfsemi.

Ég vil líka benda á annað og nefna Byggðastofnun sem hefur stutt mjög dyggilega við ferðaþjónustuna og ýmsa aðra starfsemi tengda ferðaþjónustunni. Svo mætti lengi telja.

Vegna þess að ég talaði um að hv. þm. væri neikvæður þá man ég ekki betur en að í utandagskrárumræðu hafi hann haft stór orð um hversu slæmt það væri að setja 140 millj. kr. til sauðfjárbænda í einni greiðslu fyrir áramótin. Ég tel, þótt það séu ekki háar upphæðir, að þá muni um það sem ekki hafa of háar tekjur.