Umferðarlög

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:07:49 (2845)

2003-12-06 10:07:49# 130. lþ. 44.1 fundur 419. mál: #A umferðarlög# (yfirstjórn málaflokksins) frv. 132/2003, KolH
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:07]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það að skipa umferðarmálum með þeim hætti sem hér er lagt til er í sjálfu sér ofur eðlilegt og ekki þarf að gera miklar athugasemdir við það. Hins vegar er við 1. umr. málsins eðlilegt að við skoðum það hvernig við erum stödd í þessum málaflokki og þá vil ég fara nokkrum orðum um umferðaröryggismálin sérstaklega.

Það kann vel að vera að breyting af þessu tagi skili sér í því að málaflokkurinn gangi í endurnýjun lífdaga og ég lýsi því yfir, virðulegur forseti, að ég tel ekki vanþörf á. Ég hef komið hvað eftir annað í ræðustól á þeim árum sem ég hef setið á Alþingi Íslendinga og rætt umferðaröryggismálin, rætt ákveðinn slóðaskap sem hefur viðgengist varðandi þau og þá er ég fyrst og fremst að ræða um það hversu mikill skortur hefur verið á fjármagni til þess að setja í umferðaröryggismálin og þá nýju umferðaröryggisáætlun sem Alþingi Íslendinga hefur samþykkt.

Það er alveg eðlilegt að gera sér vonir um það að við þessa tilfærslu í nýtt ráðuneyti verði breyting og bragarbót á. Ég held að þetta sé bara heilbrigt og hollt fyrir málaflokkinn. Vatnið í glasinu er nokkuð staðið og það vantar sannarlega í það súrefni þannig að ég tel að hér geti verið viðbótarsúrefni í glasið sem geri það að verkum að við fáum að sjá umferðaröryggismálin ganga í endurnýjun lífdaga. Það þarf að skoða rannsóknarnefnd umferðarslysa sérstaklega í þessu tilliti, efla hana og gera henni kleift að sinna störfum sínum svo að vel sé. Þá tel ég að betur hafi verið á málum haldið hvað varðar rannsóknarnefnd flugslysa. Ég held að rannsóknarnefnd umferðarslysa eigi að starfa á nákvæmlega sömu nótum og rannsóknarnefnd flugslysa þannig að ég tel að hér sé mjög gott mál á ferðinni og ég held að við getum öll staðið saman um það að þessi málaflokkur þurfi, eins og ég sagði, á meira súrefni að halda. Það verður líka örugglega gaman fyrir samgn. Alþingis að fá að takast á við þennan málaflokk þannig að ég tel að hér sé ágætt mál á ferðinni.