Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 10:58:03 (2869)

2003-12-06 10:58:03# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra heldur því enn fram að hér sé ekki um inngrip í kjarasamninga að ræða. Reyndar heldur hann því fram að þetta muni ekki skerða kjör fiskvinnslufólks heldur fyrst og fremst koma niður á fyrirtækjunum. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem hann getur þá svarað síðar við þessa umræðu: Ef í ljós kemur að þessi lagasetning hafi þau áhrif --- sem hún vissulega mun hafa, herra forseti, ég er ekki í minnsta vafa um það --- að skerða kjör fiskvinnslufólks, er þá hæstv. ráðherra tilbúinn til að breyta lögunum aftur þegar í stað? En það er útilokað að þetta hafi ekki nein áhrif á kjör fiskvinnslufólks. Þetta er auðvitað fjarstæða sem hæstv. ráðherra heldur fram.

Varðandi samráðið við þá sem við þetta eiga að búa þá hefur það ekkert verið. Hefur verið farið í samráð við Starfsgreinasambandið varðandi þessa lagasetningu eða Samtök fiskvinnslufólks? Var það gert? Mér er ekki kunnugt um það. Rétt væri að hæstv. ráðherra upplýsti það ef hann hefur farið í samráð við þá aðila sem við þetta eiga að búa. Þeir setja a.m.k. fram ákveðnar athugasemdir sem þeir telja að þurfi að koma til, m.a. að 3. gr. falli brott í lögunum um uppsagnarfrest. Ég sé ekki að hæstv. ráðherra ætli að verða við því. Hann býður upp á heildarendurskoðun á lögunum. Það má vera að Starfsgreinasambandið fallist á það. En ég held að eins og ráðherrann leggur þetta upp þá sé það ekki innlegg í afgreiðslu þessa máls.