Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:00:03 (2870)

2003-12-06 11:00:03# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég beindi spurningu til hæstv. ráðherra í andsvari fyrr við umræðuna og minnti á að lögin um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks byggðu á þríhliða samkomulagi verkalýðshreyfingar, atvinnurekenda og ríkisvalds, og gekk spurning mín út á það hvort samráð hefði verið haft við þessa aðila, þá sérstaklega verkalýðshreyfinguna, um breytingu á lögunum. Hæstv. ráðherra staðhæfði að verkalýðshreyfingunni hefði verið boðið upp á samráð en hún hefði hafnað því. Ég fékk staðfest hjá formanni Starfsgreinasambandsins nú fyrir stundu að rétt væri með farið hjá hæstv. ráðherra en hins vegar þarf að minna á hvert samhengi hlutanna er.

Ég spurði formann Starfsgreinasambandsins, Halldór Björnsson, hvort verkalýðshreyfingin væri því andsnúin að endurskoða þessi lög með tilliti til þeirra meginmarkmiða sem hæstv. ráðherra vék að áðan í andsvari við hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um að lögin gangi út á að bæta skilvirkni og eftirfylgni. Það stendur ekki á verkalýðshreyfingunni, það stendur ekki á Starfsgreinasambandinu að setjast niður með stjórnvöldum og atvinnurekendum með þessi markmið í huga. En með hótun um skerðingu á kjörum fiskvinnslufólks sem staðreynd þegar sest er að samningaborði var tilboði ríkisstjórnarinnar hafnað. Í því ljósi var tilboði ríkisstjórnarinnar hafnað. Ríkisstjórnin var búin að ákveða að skerða kjör fiskvinnslufólks um 100 millj. kr. með þessum lögum og á þeim forsendum taldi verkalýðshreyfingin óaðgengilegt að ganga til þessa meinta samráðs.

Þegar greinargerð laganna er gaumgæfð kemur í ljós að það er ekki skilvirkni eða aukin eftirfylgni sem vakir fyrir stjórnvöldum, heldur fyrst og fremst að hafa peninga af fiskvinnslufólki, atvinnulausu fiskvinnslufólki. Hvað segir í grg. með frv.?

Hér segir nánast í upphafsorðum grg. ríkisstjórnarinnar með þessu frv., með leyfi forseta:

,,Í fjárlagafrumvarpi er stefnt að samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs en mikilvægt er að hann megi fram ganga í því skyni að viðhalda stöðugleika og treysta stöðu efnahagslífsins. Þær breytingar sem lagðar eru til að gerðar verði á lögum nr. 51/1995, um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks, með frumvarpi þessu eru liðir í þeirri viðleitni að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.``

Með öðrum orðum, þetta er fyrst og fremst peningalegt atriði. Þetta er efnahagslegt úrræði eina ferðina enn. Ríkisstjórnin ætlar að spara peninga á kostnað þess hóps í þjóðfélaginu sem býr við bágust kjörin, atvinnulauss fólks.

Gera menn sér grein fyrir því að atvinnulaus einstaklingur fær rúmar 77 þús. kr. í mánuði hverjum til að framfleyta sér? Við erum búin að fara í gegnum það í tengslum við fjárlagaumræðuna að eitt úrræði ríkisstjórnarinnar er að hafa þrjá daga af atvinnulausu fólki í byrjun atvinnuleysistímans. Það gefur ríkissjóði um 10.700 kr. Hér er enn eitt efnahagsúrræði þessarar ríkisstjórnar, það er að hafa 100 millj. kr. af fiskvinnslufólki sem missir atvinnu sína. (Gripið fram í.)

Hvers vegna er þetta til komið í lög? Hvers vegna hefur verkalýðshreyfingin lagt áherslu á þetta fyrirkomulag í lögum? Það er til að tryggja atvinnuöryggi fiskvinnslufólks. Það er óforskammað af hæstv. ráðherra að leyfa sér að koma í ræðustól og segja að þetta tengist ekkert kjörum. Við erum að tala um 100 millj. kr. sem til stendur að hafa af þessu fólki.

Ég tel að það þurfi að taka alvarlega yfirlýsingar sem fram koma frá forsvarsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, Aðalsteini Baldurssyni, sem fer fyrir þessum málaflokki hjá Starfsgreinasambandi Alþýðusambandsins. Hann segir að stjórnvöld stefni samningum í voða með þessu lagafrumvarpi.

Í viðtali við Fréttablaðið segir Aðalsteinn, með leyfi forseta:

,,Þetta er stórmál. Ég get ekki, sem talsmaður fiskverkafólks, skrifað upp á kjarasamninga fyrir hönd þess ef skerðingunni verður haldið til streitu bótalaust.``

Þetta segir formaður matvælasviðs Starfsgreinasambandsins. Hann getur ekki skrifað undir samninga ef þessu lagafrv. verður haldið til streitu. Það er ekki nóg, herra forseti, að þetta frv. fái góða efnislega umfjöllun í tilheyrandi nefnd Alþingis. Á þessu frv. verður að gera breytingar, annars nær það ekki fram að ganga.

Ég held að ríkisstjórnin eigi að taka alvarlega þær hörðu yfirlýsingar sem fram hafa komið frá verkalýðshreyfingunni um slíka einhliða kjaraskerðingu hjá þeim hópi fólks sem býr við bágust kjörin í landinu.

Síðan er í þessari sömu frétt í Fréttablaðinu frá 2. desember rætt við Arnar Sigurmundsson sem kemur frá hinni hliðinni, atvinnurekendahliðinni. Ummæli hans eru í sömu veru. Hann segir, með leyfi forseta:

,,Ég upplifi þetta þannig að ráðherra sé að ganga mjög nærri kerfinu, án þess þó að stúta því alveg. Nái breytingarnar að fullu fram að ganga geta þær kollvarpað núverandi ákvæðum um kauptryggingu fiskvinnslufólks og leitt til átaka á vinnumarkaði. Þegar upp verður staðið munu þær ekki leiða til lækkunar útgjalda hjá Atvinnuleysistryggingasjóði.``

Þá munu þær ekki einu sinni verða til þess að ríkisstjórnin nái fram markmiðum sínum um sparnað þegar upp verður staðið.

Væri ekki nær að hæstv. ráðherra boðaði til raunverulegs samráðs sem fram færi án hótana um niðurskurð, án hótana um kjaraskerðingu á fiskvinnslufólki, atvinnulausu fiskvinnslufólki, og menn reyndu að ná sátt um hvernig hægt væri að laga þær brotalamir sem kunna að finnast í þessu kerfi? Væri ekki nær að menn hefðu slík vinnubrögð uppi?

En á þessu stigi málsins ætla ég ekki að hafa fleiri orð um frv. Þetta er 1. umr. sem nú fer fram. Við eigum eftir að ræða frv. við tvær aðrar umræður, 2. og 3., þar sem ræðutími er ótakmarkaður. Ágætt fyrir ríkisstjórnina að hafa það í huga. Ég mun fylgjast mjög rækilega með því hvernig ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra koma til með að bregðast við ábendingum og kröfum fulltrúa fiskvinnslufólks þegar málið kemur til umfjöllunar í nefndum Alþingis.