Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:09:42 (2871)

2003-12-06 11:09:42# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:09]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil í tilefni af orðum hv. þm. Ögmundar Jónassonar ítreka að það var leitað eftir samráði við verkalýðshreyfinguna um þetta mál og af okkar hálfu lá það fyrir frá upphafi að hér væri tilgangurinn að auka eftirlit og skilvirkni með framkvæmd laganna.

Ég fagna hins vegar yfirlýsingu hv. þm. Ögmundar Jónassonar um vilja verkalýðshreyfingar til þátttöku í útfærslu þessara laga. Þar kveður við nýjan tón og það er vel. Í því frv. til laga sem hér er lagt fram er gert ráð fyrir frekari útfærslu einstakra atriða með setningu reglugerðar og ég hef þegar sagt í þessari umræðu, hæstv. forseti, að ég vonaðist til að aðilar vinnumarkaðar kæmu að þeirri vinnu með okkur og finnst að orð hv. þm. Ögmundar Jónassonar bendi til að svo geti orðið.

Ég minni á, hæstv. forseti, að hér er ekki tillaga um að leggja þetta kerfi af. Þvert á móti er gert ráð fyrir því að við verjum 77 millj. kr. á fjárlögum næsta árs til þessa verkefnis.