Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:12:27 (2873)

2003-12-06 11:12:27# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, GMJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:12]

Grétar Mar Jónsson:

Virðulegur forseti. Í þessu frv. ríkisstjórnarinnar er harkalega vegið að fiskvinnslufólki og ekki síst fiskvinnslufyrirtækjum án útgerðar með því að skipta almanaksárinu niður í tvo hluta eins og gert er í frv. ríkisstjórnarinnar, fjölga dögunum úr tveimur í fjóra þar sem Atvinnuleysistryggingasjóði er ekki skylt að greiða fiskvinnslufólki bætur vegna vinnslustöðvunar þegar um hráefnisskort er að ræða.

Það sem er öllu alvarlegra er að fækka á greiðsludögum að hámarki úr 60 niður í 30. Þau fiskvinnslufyrirtæki sem án efa verða hvað mest fyrir barðinu á lagabreytingum sem þessum eru fiskvinnslufyrirtæki án útgerðar. Einmitt sömu fyrirtæki hafa í tíð kvótakerfisins átt erfiðast uppdráttar sökum erfiðra samkeppnisskilyrða í greininni. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki sem ráða yfir miklum aflaheimildum hafa ávallt í tíð kvótakerfisins aflað hráefnis til vinnslu á miklu ódýrari máta en fiskvinnslur án útgerðar en þær kaupa jafnan hráefni til vinnslunnar á fiskmörkuðum.

Virðulegi forseti. Það er öllum kunnugt sem eitthvert vit hafa á sjávarútvegsmálum að fiskvinnslur án útgerðar eiga í miklum erfiðleikum við að halda uppi stöðugri fiskvinnslu í húsum sínum vegna hins óstöðuga hráefnisflæðis. Fiskvinnslur eiga í erfiðleikum með að halda góðu fólki og stöðugum mannskap í húsum sínum þegar þau búa við svona óstöðugleika.

Hæstv. félmrh. og hæstv. kollegar hans reyna nú af öllum mætti að ná fram breytingum sem munu bitna illa á þessu fólki. Áður en vikið er að fiskvinnslufólkinu sjálfu ber að huga að þeim aðstæðum sem fiskvinnsla og íslenskur sjávarútvegur á Íslandi býr nú við.

Í fyrsta lagi ber að minnast á verulegar verðlækkanir á okkar helstu bolfisksafurðum. Í öðru lagi hefur gengið verið útvegnum afskaplega óhagstætt og í þriðja lagi er ljóst að um harðnandi samkeppni er þar að ræða, og þá sérstaklega frá Kínverjum sem kaupa gífurlegt magn til vinnslu á heilfrystu bolfiskshráefni sem sérstaklega kemur frá rússneskum frystitogaraúterðum. Vinnulaunakostnaður er margfalt lægri hvort sem er hjá rússneskum frystitogaraútgerðum í samanburði við íslenskar, eða kínverskum fiskvinnslum í samanburði við íslenskar fiskvinnslur.

Það er eðlilegt að hæstv. félmrh. svari spurningu minni: Hvað á fiskvinnslufólk að gera í þeim tilfellum þegar 30 daga hámarkinu er náð hjá einstökum fiskvinnslufyrirtækjum? Jú, starfsfólkið hættir í vinnslunni, skráir sig á atvinnuleysisskrá. Það er það sem mun gerast. Það sem mun einnig gerast er að vinnuveitandinn stendur nokkrum dögum seinna með kannski fullt hús af fiski og jafnvel ekkert starfsfólk.

Virðulegur forseti. Þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar er glórulaust og á ekki við. Ég vona innilega að hv. þingmenn stjórnarflokkanna geri sér betur grein fyrir málinu eftir þær ræður sem hér hafa verið fluttar og setji sig í spor þeirra sem hlut eiga að máli. Þessar 65--70 millj. eru kannski ekki stórar í samanburði við fjárlagafrv. í heild sinni og þessar milljónir eru ekki ýkja burðugar í samanburði við útgjöld ríkissjóðs, t.d. til utanríkismála sem nú eru að nálgast 6 milljarða kr. En þær eru sannarlega stórar og mikilvægar fyrir þá fáu vinnandi þegna sem hér er vegið að.