Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:25:58 (2875)

2003-12-06 11:25:58# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, LB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Stjórnmál snúast kannski fyrst og fremst um hugmyndir, hvaða sýn menn hafa á samfélagið og hvernig menn vilja sjá samfélagið þróast. Það hefur verið mjög eftirtektarvert að fylgjast með þeirri forgangsröðun sem birst hefur hjá hæstv. ríkisstjórn núna við afgreiðslu þessara fjárlaga. Það er nefnilega stórmerkileg setning sem er að finna í greinargerð frv. sem við hér ræðum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Að venju byggist síðarnefnda frumvarpið meðal annars á ákveðnum forsendum um tekjur og gjöld sem taka mið af stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum.``

Það er einmitt þarna sem maður staldrar við þegar maður skoðar þær leiðir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara við að leita eftir sparnaði hjá ríkissjóði. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, og ekki þá kannski síst við hæstv. félmrh. þar sem hann hefur ekki verið lengi á þingi, að það þykir við hæfi að hæstv. ráðherrar sitji í stólum sínum meðan mál þeirra eru rædd og veiti athygli þeim ræðumönnum sem eru að fjalla um þau mál sem þeir leggja hér fyrir. Þannig að mér þætti við hæfi, virðulegi forseti, að óskað yrði eftir því að hæstv. félmrh. sæti í stólnum sínum rétt á meðan þessi umræða færi fram og reyndi að fylgjast með þeim atriðum sem gerðar eru athugasemdir við.

Virðulegi forseti. Það sem ég var að nefna hér er að það merkilega við þetta allt saman er sú stefnubirting og forgangsröðum sem birtist við afgreiðslu á þessum fjárlögum og frumvörpum þeim tengdum þar sem hæstv. ráðherra segir í greinargerð með frv. sínu að þetta sé allt í samræmi við stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum. Það er vitaskuld að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um það sem við ræddum í gær, þ.e. öryrkja og það að hæstv. ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að efna tvo þriðju af þeim samningi. Það er umræða sem allir þekkja en er vissulega ákveðið birtingarform á þeirri forgangsröðun sem ríkisstjórnin hefur á sínum málum.

[11:30]

Allir þekkja líka þá hækkun sem ætlunin er að láta eiga sér stað á komugjöldum á sjúkrahúsum og heilsugæslu. Hér er það fiskvinnslufólk sem er undir. Hæstv. ráðherra var spurður að því í andsvari áðan á hverjum þessi skerðing upp á 65--70 millj. kr. muni bitna ef mat fjmrn. er rétt, þ.e. skerðing til greiðslna við þær aðstæður sem frv. lýsir. Hæstv. ráðherra svaraði því til að hún muni líklega bitna á fyrirtækjum. Ég vil leyfa mér að mótmæla því af því að þessar greiðslur í vinnustöðvunum vegna hráefnisskorts hafa gert það að verkum að fólk sem ella hefði verið hægt að senda heim launalaust fær núna laun í þessum vinnustöðvunum. Það er því fyrst og fremst verið að vega að því fólki. Fyrirtækin hafa komið til móts við 35% af launagreiðslunum vegna þess að það hafa komið 65% á móti en þegar þær eru felldar brott er mun líklegra að fyrirtækin dragi sig til baka og fólk fái ekki greitt í vinnustöðvunum nema þær eigi sér stað. Þessi aðgerð er því fyrst og fremst gagnvart fiskvinnslufólki. Þessa forgangsröðun, virðulegi forseti, sem dregur fram stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum erum við að rekast á aftur og aftur. Ég gæti haldið langa ræðu um þá merku stefnu þar sem ríkissjóður hefur þanist út umfram öll velsæmismörk á undanförnum missirum og augljóst að menn hafa algerlega misst tökin á efnahagsmálunum, það er sérumræða. Hér er aðeins lítið birtingarform þess stefnuleysis sem kannski birtist í stærri myndinni þegar menn sjá hvernig ríkissjóður hefur þanist út, því að þetta er vitaskuld meira hipsumhaps hvar borið er niður, og þá helst gagnvart fólki sem má síst við því.

Ég er sannfærður um það, virðulegi forseti, að það hefði mátt leita víðar eftir þessum 60--70 milljón kr. sparnaði en í launakjörum fiskvinnslufólks.

Hv. þm. Helgi Hjörvar nefndi það í gær að mikið lægi við að endurnýja bílaflota ráðherranna. Ekki veit ég hvaða fjárhæðir þar eru á ferðinni en það hefði sjálfsagt mátt skoða það í samhengi við þetta. Það er reyndar mjög margt í þessu sem menn eiga eftir að fara vandlega yfir.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir og hv. þm. Ögmundur Jónason sögðu áðan, að það hlýtur að teljast mikil bjartsýni hjá hæstv. ráðherra að telja að það sé hægt að fara með þetta mál á þeim skamma tíma sem eftir er þar til áætluð þingfrestun gengur í garð, það hlýtur að vera mikil bjartsýni að ætla sér að koma þessu máli í gegn fyrir hana.

Hér er kannski ekki um háar fjárhæðir að ræða sem er ekki aðalatriðið, heldur fyrst og fremst sú forgangsröðun, sú pólitík sem birtist í því að vega að þessu fólki. Maður hlýtur að spyrja: Af hverju eru það alltaf skjólstæðingar velferðarkerfisins sem þurfa að líða fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar fyrst og síðast? Meira að segja hæstv. ríkisstjórn sem ég taldi og flestir töldu að hefði verið að gera virkilega góða hluti --- þó að það hafi kannski ekki verið tilviljun að það var í aðdraganda kosninga sem samkomulagið við öryrkjana var gert --- og mál sem flestir hefðu talið að ætti að teljast ríkisstjórninni til tekna, að þegar á reynir stendur hún ekki við það samkomulag sem gert var. Það er alveg með ólíkindum, virðulegi forseti, hvernig þessari ríkisstjórn er að takast upp.

Mig langar í þessu samhengi aðeins að velta því upp hvort það ákvæði sem er núna að finna í 3. gr. laga um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla frá 1. maí 1979, sem á reyndar rót sína að rekja til ársins 1957 eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir benti á, og gengur út á það að verði fiskiðjuver eða fyrirtæki fyrir ófyrirsjáanlegu áfalli, svo sem hráefnisskorti, verður atvinnurekanda þá eigi gert að greiða bætur til launþega sinna, þó að vinna þeirra nemi eigi 130 klst. á mánuði, enda missa launþegar þá eigi uppsagnarrétt sinn meðan slíkt ástand varir.

Eins og hér hefur komið fram á þetta ákvæði rót sína að rekja til ársins 1957. Þá voru vitaskuld allt aðrar aðstæður uppi í sjávarútvegi en eru í dag. Þá voru menn kannski almennt þeirrar skoðunar að þeir réðu ekki við náttúruna og það sem hún gæfi af sér sem gæti leitt til þess að senda yrði fólk heim vegna hráefnisskorts. Ég held að sú hugsun og sú hugmynd hafi alveg átt rétt á sér á þeim tíma en nú eru breyttar aðstæður í sjávarútvegi vegna þess að öðruvísi fiskveiðistjórnarkerfi hefur verið tekið upp sem gerir það að verkum að fyrirtæki sem eru í fiskvinnslu geta mörg hver, því miður ekki öll, ráðið því að miklu leyti hvenær menn ná sér í tilteknar aflaheimildir. Það er því hægt að stjórna vinnslunni miklu betur en áður sem er eitt af því sem hefur verið talið fiskveiðistjórnarkerfinu til tekna. Þess vegna hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort þetta ákvæði eigi við í dag, hvort ekki sé rétt að skoða það vandlega að fella það brott í ljósi breyttra aðstæðna.

Ég held að það hljóti að vera eitthvað sem hæstv. ráðherra og hans fólk verði að leggjast yfir vegna þess að þær skerðingar sem hér er verið að leggja til að ráðast í, þó að þær séu nú ekki að slá kerfið af í einu vetfangi eins og hér hefur komið fram, en hæstv. ráðherra orðaði það sem svo að ,,að þessu sinni`` verði ekki gengið lengra en raun ber vitni. Það mátti ráða í orð hans að þetta væri aðeins fyrra skrefið af tveimur að því að leggja þetta kerfi niður. Ég held að það sé mikilvægt að hæstv. ráðherra upplýsi hvort sá skilningur minn og án efa fleiri sem á hann hlýddu sé réttur að markmiðið sé að leggja þessar greiðslur niður.

Það má vel færa góð og gild rök fyrir því að verið sé að mismuna atvinnugreinum með þessu en á hinn bóginn er þessi mismunun, ef svo má að orði komast, komin vegna kjarasamninga, þríhliða samninga, og það er ekki við hæfi að fella það brott einhliða a.m.k. að hluta eins og hér er ætlunin.

Ég hef, virðulegi forseti, farið í örstuttu máli lauslega yfir það mál sem hér liggur fyrir, þ.e. frv. til laga um breytingu á lögum um greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks. Við erum að ræða þetta mál við 1. umr., við erum að fara yfir þá almennu stefnumótun sem birtist í þessu máli gagnvart fólkinu í landinu, þeirri forgangsröðun sem ríkisstjórnin telur mikilvægt að halda til haga að vega helst að þeim sem minnst mega sín. Þetta mál á eftir að fá mjög vandaða og góða meðferð í félmn. Eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson benti á í ræðu sinni er tímalengd umræðna takmörkuð við 1. umr. en í 2. og 3. umr. er hægt að fara miklum mun betur og vandlegar yfir málið, komi þetta mál einhvern tíma úr nefnd. Ég held að hæstv. ráðherra hljóti, þegar þetta mál verður skoðað og hann stendur frammi fyrir þeim veruleika að hann er að stefna kjarasamningum og viðræðum í uppnám með þessum aðgerðum, að draga það til baka, nema hugmyndin hafi aldrei verið sú að þetta eigi að fara í gegn heldur eigi að bjóða upp á þegar nær dregur að þetta verði dregið til baka, hver veit um það?

En ég vil ítreka það, virðulegi forseti, að ég mótmæli því harðlega að það skuli helst vera skjólstæðingar velferðarkerfisins sem þurfa að bera hallann af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það finnst mér ekki vera við hæfi, hvorki nú né nokkru sinni.