Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 11:52:58 (2878)

2003-12-06 11:52:58# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, HHj
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[11:52]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég sperrti aðeins eyrun fyrr í umræðunni þegar hv. 2. þm. Reykv. s., Jóhanna Sigurðardóttir, beindi orðum til hæstv. félmrh. í ljósi þess að hann væri nýliði hér í þinginu og hefði þar af leiðandi ekki mikla reynslu. Af því að mér er farið eins og ráðherranum, að vera hér nýliði og reynslulítill, vildi ég hlusta á það hvaða skilaboð kæmu frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur með alla sína miklu starfsreynslu í þinginu og auðvitað líka sem fyrrv. félmrh.

Það vakti nokkra athygli mína í þeim orðaskiptum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og hæstv. félmrh. að það virtist vera eitthvað viðkvæmt að vitna til reynsluleysis ráðherrans í þinginu. Hann gat þess sérstaklega að hann hefði starfað í kringum þingið áður og hefði því talsverða reynslu og vísaði athugasemdum þingmannsins afdráttarlaust á bug. Ég verð að játa að það olli mér nokkrum vonbrigðum því að ábendingar hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur held ég að eigi fyllilega við í þessu máli, þær að það að koma inn með þetta frv. þegar sex dagar eru eftir af þingi hlýtur að kalla á nokkra umræðu.

Með gildum rökum hefur verið bent á, m.a. af hv. 2. þm. Norðvest. Jóhanni Ársælssyni, að hér kunni ákvæði í frv. að fara gegn jafnræðisreglu milli starfsgreina. Það er auðvitað álitaefni sem hlýtur að vera full ástæða til að fara mjög vandlega yfir.

Sömuleiðis er um að ræða frv. sem varðar atvinnuöryggi og kjör þúsunda manna í landinu. Í þriðja lagi er um að ræða frv. sem varðar kjarasamninga og við erum núna í aðdraganda kjarasamninga og frv. virðist vekja nokkuð hörð viðbrögð Starfsgreinasambandsins sem er það stéttarfélag sem í hlut á. Að öllu þessu virtu hljóta allir réttsýnir menn að sjá að til þess að fara yfir slík álitaefni og mál sem varðar svo brýna hagsmuni og brýna þætti í lífskjörum þúsunda manna eins og hér um ræðir þarf meira en sex daga. Það segir í frv. að lögin öðlist þegar gildi.

Virðulegi forseti. Frá því að ég kom í þingið hefur verið til umfjöllunar ítrekað að hér hafi verið sett lög sem hafi gengið gegn stjórnarskránni, lög um lífskjör þúsunda manna, í þeim tveimur tilfellum raunar öryrkja sem ekki var vandað betur til í þinginu en svo að þau gengu gegn sjálfri stjórnarskránni, voru dæmd ómerk og kölluðu á aukaútgjöld, hinn síðari dómur upp á einn og hálfan milljarð á fjáraukalögum á sl. hausti.

Ég vil segja það, virðulegur forseti, að ég hafði bundið ákveðnar vonir við að ný kynslóð þingmanna, eins og hæstv. félmrh., hefði metnað til þess að bæta almennt þau vinnubrögð sem verið hafa við lagasetningu í þinginu og reyna að þróa það áfram eins og þær kynslóðir sem hafa farið á undan okkur, enda hygg ég að hér sé talsvert betur unnið að lagasetningu nú en fyrir aðeins örfáum árum. Til þess að vanda til lagasetningarinnar sér það hver maður að ekki dugar að koma hlaupandi inn eftir að búið er að afgreiða fjárlagafrv. og ætla að fá vandaða umfjöllun um mikilsvert mál á sex dögum og láta svo lögin öðlast þegar gildi. Ég held, virðulegur forseti, að menn verði að temja sér agaðri, skipulagðari og vandaðri vinnubrögð ef þeir ætla sér að sitja á þjóðþinginu og setja lög um lífskjör annarra manna og starfskjör heilla atvinnugreina.

Það er síðan sjálfstætt áhyggjuefni að þó að hæstv. ráðherra hafi flutt rök fyrir því að hér kunni að vera efnislegar ástæður fyrir því að gera þessar breytingar og að breytingarnar kunni að vera meira í anda ýmissa nútímasjónarmiða verður ekki fram hjá því horft að frv. er ekki samið með það að markmiði. Frv. er samið með það að markmiði að stoppa upp í einhvern ímyndaðan afgang í fjárlagafrv. sem afgreitt var í gær og bjarga þar inn eins og 70 millj., eins og lífið liggi nú við, virðulegur forseti, að bjarga 70 millj. kr. á fjárlögum íslenska ríkisins fyrir næsta ár. Er það svo, virðulegur forseti? Fjárlög íslenska ríkisins eru upp á liðlega 280 þús. millj. kr. Og það hafa ekki verið vandkvæði á því í þinginu að afgreiða aukafjárlög upp á 17 þús. millj. kr. fyrir eitt ár. Engar athugasemdir hafa verið gerðar við það þó að síðan hafi á ríkisreikningi komið viðbótarskuldbindingar og í lokafjárlögum enn fleiri skuldbindingar, og breytingarnar frá fjárlögum til niðurstöðu hafi verið 35 þús. millj. Þess vegna, virðulegur forseti, verð ég að segja að ég get ekki séð að fyrir því séu neinir brýnir eða aðkallandi hagsmunir að menn flýti sér svo við lagasetningu, eins og hér er ætlunin, um mál sem varðar lífskjör þúsunda manna. Það getur ekki skipt sköpum hvort þessi sparnaðaraðgerð upp á 6 millj. kr. á mánuði komi til framkvæmda þremur mánuðum fyrr eða síðar. En það getur skipt sköpum að þingið gangi kirfilega úr skugga um að frv. standist jafnræðisreglu, að atvinnuöryggi þess fólks sem í hlut á sé tryggt og að það sé samkomulag um málið við aðila vinnumarkaðarins. Þessi atriði þurfa menn að hafa tíma til að fara yfir og fjalla vandlega um auk þess sem hér í umræðunni hefur auðvitað rækilega verið vakin athygli á því að ef menn ætla að taka þennan þátt og breyta á þennan hátt sé full ástæða til þess að skoða 3. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla. Þau lög sem hér eru til umfjöllunar, breyting á lögum nr. 51/1995, verða ekki tekin úr samhengi við það og ég fullyrði, virðulegur forseti, að það er ekki hægt að gera það svo að vel sé á sex dögum. Hversu greindir, snjallir og duglegir sem hv. stjórnarþingmenn í félmn. kunna að vera hafa þeir einfaldlega ekki tíma til þess að fara yfir þetta frv. svo að sómi sé að fyrir þingið.