Greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 12:18:12 (2886)

2003-12-06 12:18:12# 130. lþ. 44.2 fundur 420. mál: #A greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks# (tímabundin vinnslustöðvun o.fl.) frv. 136/2003, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[12:18]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra er greinilega staðráðinn í að keyra þetta mál í gegnum þingið með þeim stutta fyrirvara sem við höfum gagnrýnt. Það er miður. Ég tel ótvíræð tengsl á milli þeirrar lagagreinar sem ég nefndi, úr öðrum lögum sem ráðherrann er tilbúinn að láta endurskoða í heild sinni, og þessa frv.

En úr því að ráðherrann er svo ákveðinn í að afgreiða þetta mál fyrir jólahlé þá spyr ég hann hvort hann sé tilbúinn, á þeim fáu dögum sem eftir lifa, að kalla sérstaklega til sín fulltrúa Starfsgreinasambandsins og aðila vinnumarkaðarins út frá þeim markmiðum sem við höfum verið að lýsa, þ.e. að ná fram breytingum á lögunum sem sniðu af þá ágalla að hægt sé að misnota þessi lög. Aðilar málsins kæmu að þessu borði á þeim skamma tíma sem við höfum fram að jólaleyfi og í störfum okkar í félmn. væri hægt að taka mið af því, ef hæstv. ráðherra nær samkomulagi við verkalýðshreyfinguna um breytingar sem allir aðilar eru sáttir við.

Ég spyr því hæstv. ráðherra: Er hann tilbúinn til að kalla á sinn fund þá aðila sem við þessa löggjöf eiga að búa, á þeirri forsendu og með það að markmiði að kjör fiskvinnslufólks verði ekki rýrð eða atvinnuöryggi þess stefnt í hættu heldur einungis fyllt í þær glufur í lagasetningunni sem bjóða upp á misnotkun á ákvæðum laganna?