Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:05:07 (2902)

2003-12-06 13:05:07# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:05]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Að undanförnu hefur mikið verið rætt um samning ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalag Íslands. Sannast sagna hefði ég trúað að hæstv. ráðherra vildi að sú umræða væri að baki og vildi einskorða umræðuna við það frv. sem hér liggur fyrir þingi. En það er öðru nær. Þeir sem hefðu trúað því að ráðherrann mundi reyna að bera klæði á vopn vita nú hver sannleikurinn er.

Hann hefur umræðuna á því að beina hörðum skotum að forsvarsmönnum öryrkja. Hann sakar þá um að taka þátt í flokkspólitískri aðför að sér. Finnst hæstv. ráðherra það óeðlilegt þótt forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands veki athygli þjóðarinnar á því að ríkisstjórnin skuli ekki standa við gerðan samning? Það er þeirra mat og það (Forseti hringir.) er eðlilegt að þeir segi það og skýri frá því. Finnst hæstv. ráðherra það óeðlilegt?