Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 13:07:34 (2904)

2003-12-06 13:07:34# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[13:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Í þessum auglýsingum hefur verið sagt að orð skuli standa og samningar skuli virtir. Ég er ekki að leggja frílega út af ummælum hæstv. ráðherra. Hann vísaði í flokkspólitískan slag sem rekinn hafi verið innan og utan Alþingis og sagði að reynt hefði verið að snúa sigri öryrkja upp í svikabrigsl í sinn garð. Það var þetta sem hæstv. ráðherra sagði.

Nú hef ég iðulega staðið í kjarasamningum og ég veit það mjög vel að ef ekki væri staðið við tiltekin ákvæði samninga og gagnaðilinn segði að önnur ákvæði í samningunum væru svo mikils virði að við skyldum þegja um hitt þá er ég hræddur um að það kæmi svipur á einhvern. En nákvæmlega þessi eru skilaboðin til Öryrkjasambands Íslands. Það er verið að segja þessu fólki að það eigi að vera þakklátt fyrir það (Forseti hringir.) sem það fái. Meira að segja var einn þingmaður og hæstv. ráðherra svo (Forseti hringir.) smekklegur að segja að þeir skyldu biðja guð um að hjálpa sér því þeir vissu ekki hvað þeir gerðu, ættu að vera þakklátir (Forseti hringir.) og hvað vildi þetta fólk eiginlega upp á dekk.