Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:04:36 (2918)

2003-12-06 14:04:36# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:04]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða hér breytingu á lögum um almannatryggingar eins og öllum ætti að vera kunnugt og ætla ég að leggja aðeins inn í þá umræðu nokkra þætti.

Hv. þm. Helgi Hjörvar, þm. Samf., hefur farið ágætlega yfir þetta mál í sinni ræðu og rætt um samninginn og samkomulagið við öryrkja og hvernig það var efnt og ætla ég ekki að fara að endurtaka það sem hann sagði, heldur koma aðeins að öðrum vinkli á þessu máli. Ég get þó ekki annað í upphafi máls míns, vegna orða hæstv. ráðherra í framsögu fyrir hádegið um alla kjarabótina sem hæstv. ríkisstjórn hefur rétt lífeyrisþegum, en minnt á það að lífeyrisþegar hafa sótt þessar réttarbætur meira og minna gegnum dómstóla eða þá með því að hóta dómstólaleiðinni. Það hefur ýmislegt gengið á áður en hæstv. ríkisstjórn tók sig til og leiðrétti að einhverju leyti þeirra kjör.

Vissulega var verið að semja um útfærslu. Við þekkjum það öll sem höfum verið að vinna í málaflokki lífeyrisþega. Við þekkjum baráttu Öryrkjabandalagsins fyrir þessum breyttu greiðslum til öryrkja og hvernig þær voru reiknaðar út. Það er auðvitað útfærslan sem var verið að semja um. Síðan voru það útreikningarnir sem komu í kjölfarið og ætla ég ekki að gera þá frekar að umræðuefni.

Mig langar að vekja athygli á því hver staða öryrkja er í tíð þessarar ríkisstjórnar. Fyrir tilkomu ríkisstjórna Davíðs Oddssonar, þessara þriggja síðustu, þeirrar sem nú situr og hinna tveggja, greiddu lífeyrisþegar ekki skatta af lægstu bótum almannatrygginga, af strípuðum bótum eins og það er kallað. Í dag eru menn að greiða um 150 þús. kr. á ári í skatt, sem eru tvöfaldar mánaðargreiðslur til öryrkja miðað við strípaðar bætur, tvöfaldar greiðslur á ári sem ríkissjóður tekur til baka af kjarabótinni sem menn hafa verið að fá, vegna þess að skattleysismörkin hafa staðið í stað, þau hafa ekki fylgt. Eins og ég benti á í andsvari áðan kemur þessi aldurstengda örorkuuppbót sem er verið að leggja til í þessu frv. ofan á þær bætur sem lífeyrisþeginn er með í dag og er að borga skatt af. Þannig að af þessum milljarði sem ríkisstjórnin ætlar að láta í þennan málaflokk, í þessar bætur, fara 40% aftur í ríkissjóð. Það eru því ekki nema 600 millj. kr. sem í raun er verið að greiða til þessa málaflokks, því hitt er tekið til baka.

Ég get því ekki séð annað en að hægt hefði verið að standa við samkomulagið við öryrkjana frá 25. mars með þessari upphæð ef það hefðu verið raunútgjöld ríkissjóðs sem menn ætluðu í þetta, einn milljarð.

Hvað fá þeir öryrkjar sem við erum að tala um í mánaðargreiðslur? Hafa menn kynnt sér það? Hér er verið að tala um að tvöfalda grunnlífeyri hjá þeim öryrkjum sem urðu öryrkjar 18 ára og 19 ára og síðan er ákveðin línuleg lækkun út frá því. Öryrkjar sem ekki hafa getað unnið sér inn nein lífeyrisréttindi, sem verða öryrkjar þetta ungir og eiga aldrei kost á því að bæta kjör sín, geta ekki verið á vinnumarkaði og munu aldrei geta aukið tekjur sínar að neinu leyti, eru gjörsamlega bundnir við það að hafa framfæri sitt af örorkugreiðslunum frá almannatryggingunum. Sá öryrki er með rúmar 20.000 kr. í dag í grunnlífeyri og með 39.493 kr. í tekjutryggingu. Þetta eru rúmar 60.000 kr. á mánuði sem þessi lífeyrisþegi sem býr ekki einn er með í grunnlífeyri á tekjutryggingu í dag og getur ekki aukið þær tekjur. Hann gæti átt rétt á uppbót ef hann er með mikil útgjöld vegna heilsufars, umönnunar eða annað sem varðar fötlun hans eða sjúkdóm, sem væri þá matsatriði, en það kemur þá bara upp á móti kostnaði sem viðkomandi hefur vegna heilsufarsins. Það eru því mjög lágar upphæðir sem fólk í þessum sporum er með til framfærslu.

Ég er alveg sannfærð um að það kemur brtt. í nefndinni sem verður í þá veru sem Öryrkjabandalagið hafði til viðmiðunar þegar samkomulagið var gert. Samf. og fulltrúar okkar í heilbr.- og trn. munu að sjálfsögðu leggja fram slíka brtt. Sú brtt. mun alveg geta staðist vegna þess að raunútgjöld ríkissjóðs eru undir einum milljarði í þeirri breytingu, raunkostnaður ríkissjóðs, skattgreiðenda, er undir einum milljarði þegar búið er að taka skatta af þessari upphæð. Það er því vel hægt að leggja fram þær tillögur án þess að það þurfi að koma nokkrar breytingar fram í fjárlagafrv. eða á fjáraukalögum.

Við erum þeirrar skoðunar að orð skuli standa og munum leggja okkar af mörkum til þess og leggja fram brtt. í þessa veru.

Við vitum hvar þessi ríkisstjórn sér matarholur í sparnaðinum til þess að geta skilað afgangi af ríkissjóði. Það er í þessu frv. þar sem ekki er staðið við útfærsluna sem rædd var við Öryrkjabandalagið, það er verið að skerða réttindi fatlaðra til bílakaupa, verið að breyta tímabilinu sem menn geta endurnýjað bílana sína frá fjórum árum upp í sex og það á að fara að hækka þjónustugjöldin í heilbrigðiskerfinu. Þarna eru nú matarholurnar hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar eins og þær hafa verið undanfarin átta ár. Hún hefur alltaf vitað hvert hún á að sækja peninginn, í vasa þeirra sem hafa minnst.

Vissulega verður kallað eftir því í heilbr.- og trn. að fá þessa pappíra sem liggja fyrir í heilbrrn. frá starfshópnum. Það hlýtur að verða gert. Þau gögn hljóta að verða lögð fram í nefndinni, um kostnaðarmatið, um útreikningana frá starfshópnum. Það hlýtur að vera hið eðlilegasta mál.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Hvers vegna er miðað við einstaklinga sem verða öryrkjar 18 ára? Nú er það svo í almannatryggingalögunum að örorkulífeyrisgreiðslur miðast við 16 ára aldur, þá hefjast þær. Hvers vegna er hér miðað við 18 ára aldur? Hvers konar greiðslur á þá að greiða öryrkja sem er 16--18 ára? Á hann að vera með sömu bætur og greiddar eru í dag eða fær sá öryrki enga hækkun frá 16--18 ára? Það vantar svör við því. Ég hef ekki heyrt það koma fram í þessari umræðu hvar þessi hópur á að lenda. Á hann að vera með 60 þús. kr., herra forseti, er það meiningin? Og á síðan að fara að hækka eftir að hann er orðinn 18 ára?

Ég verð að segja að það er löngu tímabært að lífeyrisþegar komi að sinni kjarabaráttu, að sínum kjaramálum. Ég minni á það að Samf. hefur ítrekað verið með þingmál í þinginu, um afkomutryggingu, þar sem lagt er til að lífeyrisþegar komi beint að sínum kjaramálum við ríkið. Ég minni á það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur verið 1. flm. þessa máls og ötull talsmaður þess að komið verði hér á afkomutryggingu og Samf. öll, enda var það baráttumál okkar bæði í síðustu kosningum og í kosningunum þar á undan, að komið yrði á þessari afkomutryggingu. Þá gætu lífeyrisþegar komið beint að sínum kjaramálum.

Ég spyr hæstv. ráðherra, í ljósi þess að raunútgjöld ríkissjóðs af þessari breytingu eins og Öryrkjabandalagið lagði úfærsluna fram í samkomulaginu 25. mars, í ljósi þess að það kostar ekki yfir milljarð þegar ríkið er búið að hirða skattinn af öryrkjunum sem fá þessar greiðslur: Er hæstv. ráðherra þá tilbúinn að breyta þessari töflu sem er inni í 2. gr., þar sem línulega hækkunin er mun lægri en gert var ráð fyrir í útfærslu Öryrkjabandalagsins, er hann tilbúinn til að leiðrétta það? Því það er alveg ljóst að raunútgjöld ríkissjóðs eru undir milljarði þegar skatturinn er farinn af. Ég hvet hæstv. ráðherra, því ég veit að hann er allur af vilja gerður í þessu máli, að koma með brtt. sjálfur svo hún verði samþykkt, því það er alveg öruggt að sú brtt. mun koma fram í nefndinni af fulltrúum Samf. Við munum leggja það fram að staðið verði við það samkomulag sem gert var 25. mars og þá útfærslu sem var til umræðu.

Herra forseti. Ég hef ekki meiru við þetta að bæta, en vil þó samt í lokin minna á það að almannatryggingalögin sem við erum að ræða breytingu á, eru að grunni til frá 1971. Það er orðið löngu tímabært að skoða þau í heild. Við höfum verið að fá hér inn í þingið mörg hundruð breytingar á þessum lögum og það er aldrei horft á lagasetninguna í heild. Lögin eru orðin þannig á ská og skjön að það er ekki boðlegt og greinarnar margar hverjar eru orðnar þannig að það er ekki hægt að skilja þær fyrir nokkurn mann. Það er varla að starfsfólkið sem þarf að vinna eftir lögunum skilji þau, lagagreinarnar eru orðnar svo flóknar. Og hér er verið að bæta við enn fleiri greinum sem flækja lögin enn þá meira. Það þarf því að skoða lögin í heild, þó svo hæstv. ráðherra hafi komið hér í tvígang með hreingerningu eða verið að snyrta til ýmsa annmarka á lögunum, gamlar klausur sem eru löngu orðnar úreltar. Það er ekki nóg, það þarf að skoða lögin í heild og það þarf að gera þau þannig að þau séu sanngjörn og réttlát og komi þeim til góða sem þurfa að treysta á velferðarkerfið, sem þurfa að draga fram lífið af þeim greiðslum sem þaðan koma. Við verðum að tryggja að öryggisnet velferðarþjónustunnar sé það þéttriðið að fólk falli ekki niður um möskvana.