Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:18:00 (2919)

2003-12-06 14:18:00# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:18]

Þuríður Backman:

Frú forseti. Við fjöllum um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Það liggur nærri að þetta sé beint framhald af umræðu undanfarinna daga um fjárlög ríkisins, svo samofið er þetta frv. afgreiðslu þeirra laga.

Frú forseti. Í ár er ár fatlaðra. Í tilefni þess og til að undirbúa komu þessa árs voru í aðdragandanum og á síðasta ári viðræður, bæði formlegar og óformlegar, á milli Öryrkjabandalagsins og heilbrrh. um hvernig ætti að halda upp á þetta ár með einhverjum þeim hætti sem kæmi öryrkjum til góða. Samkomulag sem gert var og sem frv. hér á að taka til, eða ætti að taka til, er árangur og niðurstaða þeirra viðræðna. Öryrkjabandalagið lagði ríka áherslu á að bæta kjör yngstu öryrkjanna, þeirra sem ekki hafa átt neina möguleika eða litla til þess að vera úti á vinnumarkaðnum og afla sér réttinda í lífeyrissjóði. Ég tel að þar hafi Öryrkjabandalagið haft réttmætar og góðar áherslur því það er þessi hópur, yngsti hópurinn, sem hefur hvað minnst réttindi og hefur átt hvað erfiðust lífskjör, þ.e. þeir sem hafa orðið að vera eingöngu á bótum frá almannatryggingum.

Því var það fyrir okkur öll, og ekki síst fyrir öryrkja, ánægjulegur viðburður að samkomulag skyldi nást, mest fyrir yngstu öryrkjana, kjarabætur sem komu öllum til góða en sem áttu að minnka ár frá ári og falla alveg út við 67 ára aldur. Þetta samkomulag var undirritað með viðhöfn í Þjóðmenningarhúsinu þann 25. mars sl.

Samkomulagið er ígildi kjarasamnings fyrir öryrkja því að öryrkjar eru ekki í þeirri stöðu að geta gengið til kjarasamninga með sama hætti og verkafólk úti á hinum almenna vinnumarkaði eða opinberir starfsmenn. Þeir hafa ekki þann rétt sem launafólk hefur og þeir hafa fram til þessa orðið að berjast hörðum höndum fyrir bættum kjörum, eða bættum hærri greiðslum, en það er alfarið í höndum viðkomandi ríkisstjórnar að hafa áhrif á það hver kjörin eru. Þess vegna var það ekki síður mikilvægur árangur í réttindabaráttu öryrkja að ná þessu samkomulagi.

Fulltrúar Öryrkjabandalagsins hefðu aldrei handsalað þetta samkomulag nema vegna þess að það var vitað hvað í því fólst. Það var vitað að mestu bæturnar færu til yngstu öryrkjanna og rynnu svo út við 67 ára aldur. Það var líka vitað hvernig dreifingin átti að vera og að kostnaðurinn yrði rúmur milljarður króna. Þegar gengið var frá samningnum var Tryggingastofnun ríkisins búin að reikna það út að með því að fara eftir almannatryggingalögunum og taka tillit til þeirra sem yngstir eru, sem eru 16 ára en ekki 18 ára eins og segir í þeirri töflu sem frv. tekur til, væri upphæðin rúmir 1,5 milljarðar. Það var á grundvelli þessarar upphæðar sem Öryrkjabandalagið handsalaði samninginn og taldi að miklar bætur væru að honum, það miklar að ásættanlegar væru. Og ég verð að segja, frú forseti, að vissulega er frv. sem slíkt, þ.e. hugmyndin í frv. er góðra gjalda verð og það sem Öryrkjabandalagið stendur að en af því að þetta er ígildi kjarasamnings er ekki staðið við þann hluta sem Öryrkjabandalagið taldi sig vera að handsala á þessum merka degi.

Þess vegna snýst þessi gleðilegi atburður upp í hörmulega meðferð og það er alveg sama hvernig hæstv. heilbrrh. reynir að komast frá þessu, það er ekki hægt að tala um að staðið hafi verið við samninginn og að frv. endurspegli algjörlega það sem handsalið gerði ráð fyrir. Þótt launataflan sé ekki hér í krónum talin eru það þessar línulegu greiðslur, hvernig þær eiga að lækka, sem skipta máli.

Og ég verð að segja, frú forseti, að öryrkja munar um 500 millj. kr. Það skiptir máli hvort útreikningarnir gefa öryrkjum 1 milljarð, eins og búið er að samþykkja í fjárlagafrv., eða hvort handsalið var upp á 1,5 milljarða. Það er um það sem við erum að takast á í þessu frv.

Það var búið að reikna það út að það ætti að draga úr aldurstengdu örorkubótunum um 2,04% fyrir hvert ár. Þetta skerðir aldurstengdu örorkubæturnar um rúmar 400 kr. fyrir hvert ár, örorkuuppbótin af þessu aldurstengda er þá rúmar 20 þús. fyrir yngsta hópinn og deyr út um 67 ára, er þá alveg hreint lokið, en miðað við þessa mismunandi útreikninga munar 500 millj.

Eins vil ég nefna það að tímasetning þessa samkomulags, undirritunin, situr í okkur, hæstv. forseti. Hún situr í okkur þingmönnum stjórnarandstöðunnar fyrir það að þarna fór fram gjörningur sem hafði örugglega áhrif í kosningabaráttunni og fyrir vikið naut Framsfl. bæði trúnaðar og trausts sem skilaði sér sem gott veganesti inn í kosningarnar. Hvort sem tímasetningin var tilviljun eða ekki er þetta staðreynd. Og ég tel víst að fjölmargir öryrkjar og aðrir sem hafa fylgst með kjörum þeirra hafi litið til Framsfl. með nokkru trausti um að staðið yrði við þetta samkomulag og þá hugsanlega greitt flokknum atkvæði sitt. Aðdragandinn er þessi og því er ekki síður alvarlegt að núna skuli þessu samkomulagi vera rift eins og mörgum öðrum kosningaloforðum sem Framsfl. stóð fyrir og hefur ekki staðið við eftir því sem liðið er á árið.

Frú forseti. Í upphafi máls hæstv. heilbr.- og trmrh. komu fram ásakanir á hendur forustu Öryrkjabandalagsins um að það gengi erinda stjórnarandstöðunnar. Ég mótmæli þessum ummælum (Gripið fram í.) því Öryrkjabandalagið hefur staðið fast á sínu máli og það ver rétt sinn og þær kjarabætur sem handsalið hljóðaði upp á.

Ég tel að í rauninni sé ríkisstjórnin búin að afgreiða þetta frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar. Hún gerði það með afgreiðslu fjárlagafrv. í gær því að það á eingöngu að setja í það 1 milljarð. Eingöngu segi ég, en það er auðvitað mjög góð upphæð og töluverð kjarabót fyrir öryrkja en það er ekki nema 2/3 af samkomulaginu sem gert var.

Ég vil taka það fram að það er rétt að kalla eftir niðurstöðu starfshópsins inn til heilbr.- og trn., að fá þá töflu sem lá fyrir þegar samkomulagið var handsalað og útreikningar Tryggingastofnunar ríkisins lágu fyrir á því samkomulagi sem a.m.k. Öryrkjabandalagið taldi sig vera að ganga frá. Ummæli hæstv. heilbrrh., m.a. á þingi, var ekki hægt að skilja öðruvísi en svo að hann hafi talið að það vantaði þennan hálfa milljarð til þess endanlega að ganga frá samkomulaginu.

Frú forseti. Það sem mér finnst einnig alvarlegt í þessu frv. er að ekki skuli þá koma alveg skýrt fram með meira afgerandi hætti að það eigi að taka upp viðræður við öryrkja, það eigi að endurskoða þessar greiðslur, um mitt næsta ár. Það er ljóður að það komi ekki skýrar fram að það eigi að greiða það sem upp á vantar að ári liðnu, þ.e. frá árinu 2005. Eins og gengið er frá þessu frv. er það ekki fast í hendi að málinu verði lokið eins og öryrkjar töldu sig vera að ganga frá samkomulaginu.

Ég ætla að vona að í hv. heilbr.- og trn. fáist leiðrétting á þeim taxta sem hér kemur fram --- ég kalla þetta taxta --- þeirri prósentulækkun sem hér kemur fram í 2. gr. á greiðslum til öryrkja, að breytingar náist á þessari uppbyggingu í takt við það sem öryrkjar töldu sig vera að semja um. Svo vona ég að það náist skýrari mynd á hvernig þetta ferli hefur verið allt saman og að það verði þá ljóst hvernig eigi að ljúka málinu. Eins vona ég að hið fyrsta verði teknar upp áframhaldandi viðræður á milli öryrkja og hæstv. ráðherra þannig að áfram megi vinna að kjarabótum fyrir þeirra hönd og það þurfi ekki að bíða fram á mitt næsta ár eftir endurmati á þessum greiðslum, heldur geti umræður farið strax fram. Það er á svo mörgum sviðum, frú forseti, sem þarf að bæta kjör öryrkja og ég tel að það sé rétt að nota það sem eftir lifir af þessu ári, ári fatlaðra, til að hefja áframhaldandi viðræður og þær standi fram á næsta ár.