Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:37:57 (2922)

2003-12-06 14:37:57# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:37]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Hv. þm. Þuríður Backman ræðir mikið um 1,5 milljarða en það var alltaf gengið út frá því að um væri að ræða allt að 1 milljarði. Menn ættu að fagna því.

Ég vil spyrja hv. þm. aftur hvort hún telji þó ekki miklar bætur hafa áunnist síðustu ár í ljósi þess að vísitölur allra bóta hafa hækkað um 46% frá árinu 1995 en kaupmáttur launa hefur hækkað um 34%. Þarna hefur verið komið verulega til móts við þennan hóp.

Það má kannski segja að alltaf megi gera betur. En það er í raun verið að stíga þessi skref í stórum stökkum. Síðustu missiri hefur kaupmáttur launa aukist, um 10% frá árinu 2000, þ.e. síðustu þrjú ár, en bætur grunnlífeyris og tekjutryggingar hafa hækkað nokkuð umfram kaupmátt launa. Kaupmáttur allra bótaflokka örorkulífeyrisþegans, sem tekið hefur verið dæmi um og hæstv. ráðherra greindi frá í ræðu sinni fyrr í dag, hefur aukist um 24% og þetta eru tölur frá fjmrn.

Þetta er fjórðungshækkun kaupmáttar þessara bóta síðustu missiri. Þetta er breyting langt umfram kaupmátt launa. Enginn tryggingamálaráðherra og engin ríkisstjórn í seinni tíð getur státað af öðrum eins árangri. Ég vona að hv. þm. Þuríður Backman geti tekið undir það með mér.