Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 14:56:29 (2930)

2003-12-06 14:56:29# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[14:56]

Ágúst Ólafur Ágústsson (andsvar):

Frú forseti. Fyrir mér er þetta mál ósköp einfalt. Þetta snýst um samkomulag sem ríkisstjórnin gerði við öryrkja en hún er núna að svíkja. Öryrkjabandalagið hefur kallað eftir efndum þessa samkomulags (Gripið fram í: Hvað bull er þetta?) Morgunblaðið hefur kallað eftir efndum þessa samkomulags. DV hefur kallað eftir efndum þessa samkomulags og við í stjórnarandstöðunni og í Samfylkingunni köllum eftir efndum þessa samkomulags.

Varðandi stöðu öryrkja á Íslandi þá held ég að bæði Helgi Hjörvar og Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir hafi komið afskaplega vel inn á hana og mér finnst óþarfi að endurtaka það. Engu að síður vil ég hnykkja á því að þessi samanburður sem ég er að tala um er samanburður við hin Norðurlöndin og hann sýnir einfaldlega að við erum eftirbátar hinna Norðurlandanna. Ég er sannfærður um að við getum gert betur við þennan hóp einstaklinga í samfélagi okkar sé pólitískur vilji fyrir því. Og þá eigum við að gera það.