Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:00:54 (2933)

2003-12-06 15:00:54# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, PHB
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:00]

Pétur H. Blöndal:

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um málefni öryrkja en minnst um málefni þeirra öryrkja sem fá ekki neitt, þeirra öryrkja sem metnir eru með 49% örorku eða minna. Þeir fá hvorki úr lífeyrissjóði, almannatryggingum eða yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Þeir fá ekki barnabætur, bifreiðastyrki, lán til bifreiðakaupa eða annað slíkt. (Gripið fram í.) Þeir fá ekki örorkustyrk, hv. þm. Fólk þarf að ná 50% örorku til þess. Við skulum hafa þetta á hreinu.

Ef tekjutapið væri í hlutfalli við örorkumatið þá er þetta fólk að tapa nærri helmingi af tekjum sínum án þess að nokkur bæti því það upp. Öryrkjabandalagið er ekki að berjast fyrir þessu fólki, enda hefur það ekki áhuga á smælingjum, það hefur bara áhuga á hátekjufólki eins og öll baráttan fyrir Hæstarétti gengur út á.

Annar vandi í lífeyriskerfi okkar er að við erum með mjög vitlaust örorkumat. Það fer eftir læknisfræðilegri örorku. Alla mína ævi, ef ég hefði orðið öryrki, misst mátt í fótunum og þurft að sitja í hjólastól, hefði ég ekki tapað krónu af tekjum mínum, frú forseti, ekki krónu. En ég hefði fengið örorkustyrk, örorkubætur og annað slíkt og notið alls kerfisins. Það er ekkert samhengi á milli tekjutapsins og örorkumatsins. Það er náttúrlega alveg út í hött. Þessu verður að breyta. Þetta er allt of dýrt kerfi og allt of ósanngjarnt, líka fyrir þá sem metnir eru með litla örorku og fá ekki neitt en tapa hugsanlega tekjum, t.d. margir geðfatlaðir.

Maður nokkur, frú forseti, átti kommóðu. Hann vantaði sokka einn daginn. Hann fór í eina skúffuna, fann einn sokk og sagði: Ósköp er ég nú fátækur, ég á bara einn sokk. Í hinum skúffunum var fullt af sokkum. Hann leit bara í eina skúffuna. Svo fór hann að gera ráðstafanir. Hann keypti helling af sokkum. Svona þróum við velferðarkerfið, frú forseti. Svona þróum við velferðarkerfið.

Við lítum alltaf á einn þátt og látum sem við vitum ekki um allt hitt. Lífeyrissjóðirnir vinna eins og Tryggingastofnun sé ekki til og Tryggingastofnun vinnur eins og lífeyrissjóðirnir séu ekki til. Farið á heimasíður þessara fyrirbæra, þessara stofnana. Þar er ekki orð um hitt kerfið. Tryggingastofnun eyðir ekki orði á lífeyrissjóðina svo að maður tali nú ekki um sjúkrasjóðina, húsaleigubæturnar, lánasjóðinn og öll þessi kerfi. Ekkert þeirra veit af hinu, ekkert. Það er sem sagt bara einn sokkur til og við eigum voðalega bágt.

Frú forseti. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að þeir sem eru ungir öryrkjar fá 126 þús. kr. á mánuði í lífeyri eftir þessa breytingu. Mig langar að líta á taxta Eflingar í því samhengi. Í því stéttarfélagi eru margir og kannski megnið af því fólki sem vinnur á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða. Vita hv. þingmenn hver hæsti taxtinn þar er? Hann er 128 þús. kr. Hann er 2 þús. kr. hærri en það sem ungi öryrkinn sem aldrei hefur unnið fær. Þetta er raunverulegt fólk. Ég veit um eitt hjúkrunarheimili þar sem einn er á þessum háu tekjum, með 128 þús. kr. Hinir eru á allt niður í 98 þús. kr. En viðkomandi þarf að borga í lífeyrissjóð 5 þús. kr., í stéttarfélag nærri 2 þús. kr. (Gripið fram í.) Hann borgar 7 þús. kr. af þessum 128 þús. kr. háu tekjum á meðan öryrkinn borgar hvorugt og er með 126 þús. kr. Öryrkinn er með hærri tekjur en sá sem er vinnandi allan daginn og þarf að borga barnaheimilisgjöld fyrir börnin sín. Þetta vinnandi fólk borgar með sköttum sínum það kerfi sem við erum að búa til og er eflaust mjög ánægt með það. Ég ætla að fara í gegnum nokkur dæmi.

Við skulum gefa okkur að einhver sé með þennan hæsta taxta, 128 þús. kr. taxta Eflingar. Annar sem vinnur við hliðina á honum er með 128 þús. kr. líka og verður öryrki. Sá fær úr Lífeyrissjóði Eflingar 70 þús. kr. Síðan fær hann frá Tryggingastofnun 58 þús. Hann er kominn með 128 þús. kr. í lífeyri frá lífeyrissjóðnum og Tryggingastofnun. Eins og ég gat um áðan borgar hann af þeim tekjum hvorki í stéttarfélag né í lífeyrissjóð. Ef hann á þrjú börn, sá sem varð öryrki, fær hann 7 þús. kr. fyrir hvert barn úr lífeyrissjóðnum og 15 þús. frá Tryggingastofnun. Hann fær 22 þús. fyrir hvert barn eða 66 þús. til viðbótar. Það fékk hann ekki þegar hann var að vinna á háu laununum, 128 þús. kr. Hann er þannig kominn upp í 194 þús. kr. í lífeyri. Svo á hann að fá 12 þús. kr. samkvæmt þessu fína samkomulagi sem hæstv. heilbrrh. gerði við Öryrkjabandalagið, sem ég ætla að kalla hæstvirt líka. Þá er hann kominn upp í 206 þús. kr. en var með 128 þús. kr. Hvað skyldi sá sem er með 128 þús. kr. og heldur áfram að vinna hugsa þegar hann borgar skatta sem fara í þetta? Hann þarf að borga barnaheimili sem öryrkinn gerir ekki því að hann er heima, 20 þús. kr. á barn, kannski á hann eitt barn á barnaheimili.

Nú skulum við taka almennilegt dæmi. Meðallaun Íslendinga eru 250 þús. kr. Tökum einn slíkan, einn sem er með meðallaun Íslendinga samkvæmt upplýsingum á heimasíðu kjararannsóknarnefndar sem kannar þúsundir manna. Hann fær samkvæmt upplýsingum á heimasíðum nokkurra lífeyrissjóða um 57--66% af launum. Gefum okkur að hann fái 60%, 150 þús. kr. í lífeyri á mánuði. Hann fær auk þess örorkulífeyri frá Tryggingastofnun því að hann skerðist ekki vegna lífeyris frá lífeyrissjóðunum. Hann er því með 170 þús. kr. í lífeyri. Fínt. Ég mundi segja þokkalegt. En svo fær hann, ef hann á þrjú börn, 66 þús. kr. eins og hinn. Þá er hann kominn upp í 236 þús. í bætur. Ef þessi maður er þrítugur þá fær hann líka 12 þús. kr. til viðbótar við 236 þús. kr., þá fær hann 248 þús. kr. Hvað eru menn að gera, frú forseti?

Nú skulum við taka iðnaðarmann eða stjórnanda með 350 þús. kr. Þeir eru nokkrir líka samkvæmt upplýsingum kjararannsóknarnefndar. Ef hann verður öryrki, þá fær hann 210 þús. kr. í örorkulífeyri og það er alls ekki sjaldgæft. Sjómenn eru með það almennt. Hann fær 20 þús. kr. óskertar í örorkulífeyri í dag þannig að hann er með 230 þús. kr. í lífeyri, örorkulífeyri og það er sagt að hann eigi bágt enda sagt að allir öryrkjar eigi bágt. Það er erfitt að missa mátt í fótum en fjárhagslegt tjón er ekki endilega mikið. Ef hann á þrjú börn þá fær hann 66 þús. kr., þá er hann kominn upp í 296 þús. kr. í bætur. Og svo á hann að fá 12 þús. kr. líka, ef hann er þrítugur, þá er hann kominn upp í 308 þús. í bætur.

Þetta má kannski ekki segja, ég veit það ekki. Þetta er kannski ljótt. Ég kalla þetta ekki lágar tekjur. Ég hugsa t.d. að margir félagsmenn í BSRB, en helmingurinn nær tæplega 200 þús. kr. á mánuði en þeir að borga þessi ósköp, hv. þm. Ögmundur Jónasson, formaður BSRB. (ÖJ: Borga hvaða ósköp?) Þeir eru að borga 308 þús. kr. í bætur og 12 þús. kr. í viðbót, milljarðinn. Samkomulagið gekk út á að setja ætti milljarð á alla. Öryrkjabandalagið stóð að því, háttvirt eða hæstvirt, þ.e. 100 þús. kr. á hvern einasta öryrkja í landinu. Öryrkjar eru 10 þúsund. Þeir voru 5 þúsund fyrir 10 árum, þeir hafa tvöfaldast síðan þá. Kannski vegna þess að bæturnar eru svo góðar, ég veit það ekki.

Milljarðurinn gerir 100 þús. kr. á hvern einasta öryrkja í landinu, 8 þús. kr. á mánuði á hvern einasta öryrkja ef því yrði dreift jafnt á alla. Og hvað gerist? Hæstv. heilbr.- og trmrh. fær óbótaskammir. Það eru birtar auglýsingar um að menn eigi að standa við samkomulag og ég veit ekki hvað. Menn eru í hasarslag og voða gaman, markaðssetningin á fullu. Verkalýðsfélögin og Öryrkjabandalagið borga það. Þetta samkomulag kostar 4 þús. kr. á hvern einasta Íslending, að litlu börnunum og gamla fólkinu meðtöldu. Svo vanþakka menn þetta eins og það sé bara ljótt að gera þetta. Ríkisstjórnin er ljóti karlinn að setja 100 þús. kr. á hvern öryrkja.

Ég sé að fulltrúi Öryrkjabandalagsins er horfinn af vettvangi. Það er ekki skrýtið. Þetta er ótrúlegt. Þetta eru ótrúlegar árásir. Menn eru að deila um samkomulag hér og þar og ég veit ekki hvað. Þetta eru formsatriði en þeir þakka ekki einu einasta orði það sem gert er. Ekki einu einasta orði. Ríkisstjórnin er bara ljóti karlinn. Ég er ljóti karlinn og hæstv. heilbr.- og trmrh., ég ætla ekki að lýsa því hvernig ráðist hefur verið á þann mann.

Þetta gengur út á slaginn. Það er meira gaman að vera í slag en að koma með skynsamlega lausn. Vandinn, frú forseti, er hjá þeim öryrkjum sem ekki ná framreikningi í lífeyrissjóði, sem ekki hafa unnið í þrjú ár á vinnumarkaði. Þar er vandinn. Af hverju snúum við ekki ofan af vandanum, af hverju bætum við ekki kjör þeirra? Segjum að sá sem ekki nær 20 þús. kr. í framreikningi skuli fá 20 þús. kr. eða það sem á vantar. Það mundi kosta miklu minna og væri miklu betra og skynsamlegra. Það mundi ekki leggjast jafnþungt á skattgreiðendur og það mundi bæta kjör þessa sérstaka hóps miklu betur í stað þess að gusa þessu á alla þá sem eru tiltölulega vel settir.

Ég mun leggja til í hv. heilbr.- og trn. að menn skoði þennan möguleika. Ég vil að það verði reiknað út hvað þetta muni kosta. Það er hægt að gera betur við þetta fólk ef menn skoða alla kommóðuna í einu. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að hætta að kíkja í eina skúffu í einu og sjá bara einn sokk.