Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:19:28 (2937)

2003-12-06 15:19:28# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:19]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Fyrst vil ég að víkja að nauðsynlegum leiðréttingum. Hér var fullyrt fyrir mínútu eða svo að staðið hafi verið við samninginn við Öryrkjabandalag Íslands. Það er ekki rétt. Það var vissulega handsalað samkomulag og það varð samkomulag um að stefna að því að viðurkenna sérstaklega sérstöðu ungra öryrkja og að stíga skyldi fyrsta skrefið í þá átt (Gripið fram í: Var það ekki gert?) með þessum samningi. Það var ekki staðið við það hvernig að því skyldi ... (Gripið fram í: Var það ekki gert?) Nei, það var ekki gert. Það var ekki staðið við samninginn.

Á að fara í gegnum þessar lygar Framsfl. eina ferðina enn? Þeir eru kallandi og gasprandi hér fram í þingræður manna og ættu nú að sjá sóma sinn í að hafa sig hæga þegar þeir eru að brjóta samning á öryrkjum. Þeir ættu nú að sjá sóma sinn í því. Það er búið að upplýsa það hvernig þetta samkomulag var. Það átti að tvöfalda grunnlífeyrinn. Færa hann úr 20.600 kr. í 41.200 kr. Síðan átti að koma skerðing um 421 kr. fyrir hvert ár að 67 ára aldri. Frá þessu var greint eftir að samningurinn var gerður í fréttum útvarpsins og í fréttum Morgunblaðsins. Þetta er staðreynd.

Síðan er Framsfl. alltaf að reyna að ljúga sig út úr þessu máli með því að segja að áætluð heildarupphæð upp á rúman milljarð hafi verið inntak samningsins. Það er ekki rétt. Það er rangt og það er lygi.

Ég veit ekki fyrir hvað það var sem Framsfl. fékk auglýsingaverðlaun. Fyrir auglýsingabrellu eða var kannski verið að verðlauna flokkinn fyrir sviksemi? Mér finnst það dapurlegt hlutskipti fyrir stjórnmálamenn að þurfa að verja þessi svik á Alþingi. Mér finnst það dapurlegt. Sannast sagna hefði ég trúað því að menn mundu sjá sóma sinn í því að reyna að víkja þessu til hliðar og reyna að horfa fram á veginn og viðurkenna svikin í stað þess að koma hér hver á fætur öðrum og reyna að ljúga upp á Öryrkjabandalagið og forsvarsmenn þess því að það eru menn að gera. Þetta eru lygar og ósannindi sem farið er með í þingsalnum.

Síðan þarf að leiðrétta hv. þm. Pétur H. Blöndal um þær upphæðir sem öryrkjar fá. Öryrki sem aldrei hefur farið út á vinnumarkað hefur núna um 95 þús. kr. og fer hæst í 115 þús. eftir því sem ég kemst næst. Hv. þm. Pétur H. Blöndal talaði um miklu hærri upphæðir. Reyndar var málflutningur hv. þm. með slíkum eindæmum að það er varla hægt að ræða það vegna þess að hann er að færa þjóðfélagsumræðuna langt aftur í aldir. Reyndar var íslenskt samfélag miklu siðaðra en svo að það liti nokkurn tíma svo á að þeir sem slösuðust eða veiktust væru einhverjir þurfalingar á framfæri hinna. Hann er að tala um launafólk sem vinni fyrir þessu fólki. Þá hafa væntanlega hátekjumennirnir og ofurtekjumennirnir með milljónir á mánuði væntanlega flesta öryrkjana á framfæri sínu? Er það ekki? Hafa þeir ekki flesta öryrkja á sínu framfæri, ofurlaunamennirnir í fjármálageiranum sem hafa klórað til sín milljónirnar á mánuði? Það eru þeir menn sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er að vorkenna.

Síðan er það sokkakenning Sjálfstæðisflokksins. Hún er stórkostlegust af öllu finnst mér (Gripið fram í: Ekki Sjálfstæðisflokksins.) Ekki Sjálfstæðisflokksins, það er ágætt að heyra það. Það er sokkakenning hv. þm. Péturs H. Blöndals. Hann er að hvetja til þess að við lítum heildstætt á málið vegna þess að hann veit um mann sem einhvern tíma fann bara einn sokk í skúffunni og hélt að hann ætti ekki fleiri. Svo leitaði hann í fleiri skúffum og fann fleiri sokka. Þannig er það náttúrlega með fátæku öryrkjana. Eiga þeir ekki bara fullt af sokkum? Eru þeir nokkuð fátækir?

Hvers konar sendingar eru þetta til öryrkja á Íslandi? Hvers konar umræða er þetta? Ég hefði haldið að stjórnarsinnar hefðu sig hæga hér og sæju sóma sinn í því að vera ekki að reyna að bera ósannindi á forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands, sem þeir hafa gert hér hver á fætur öðrum. Það er dapurlegt að vita til þess að ungir þingmenn sem eru að koma hingað inn á þing fara með ósannindi til að reyna að verja sinn ráðherra.

Það var gerður samningur um að hækka um helming grunnlífeyri, skerða síðan línulega eftir hverju ári um 421 kr. Menn ræddu hvers vegna þetta væri heppilegt fyrirkomulag, þ.e. að hafa línulega skerðingu jafna. Menn ræddu það og það væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. heilbrrh. staðfestir það ekki að það hafi verið rætt milli hans og formanns Öryrkjabandalagsins að heppilegt væri að hafa jafna línulega skerðingu til að reyna að koma í veg fyrir eða draga úr hvata til þess að tekjulítið fólk reyndi að forða sér yfir á örorku heldur reyndi fyrir sér eins lengi og unnt væri á vinnumarkaði. Þetta var rætt. Þetta var hugsunin á bak við samkomulagið.

Ég hef kynnt mér þetta samkomulag líka. Ég gerði það sl. vor. Ég ræddi þá við forsvarsmenn Öryrkjabandalags Íslands og þeir höfðu samband við mig ýmsir og væntanlega fulltrúa úr öðrum flokkum. Menn sögðu sem svo að þetta væri undarleg tímasetning á undirskrift í Þjóðmenningarhúsi landsmanna rétt fyrir kosningar. En menn ákváðu að stíga upp úr hinum pólitísku skotgröfum vegna þess að þeir væru að ná mjög mikilvægum árangri með þessum samningi og menn fögnuðu honum. Ég gerði það.

Mér finnst hugsunin á bak við þennan samning vera mjög góð. Í fyrsta lagi finnst mér gott að skera á tengslin milli aðskiljanlegra hópa innan almannatryggingakerfisins. Þar er í allt of ríkum mæli byggt á alhæfingum. Að setja í eina spyrðu alla öryrkja og alla aldraða svo dæmi sé tekið eða þessa vegna alla öryrkja. Það er staðreynd, eins og bent hefur verið á við umræður um þessi mál, að kjör öryrkja eru tryggð á mismunandi vegu. Þannig fá margir öryrkjar sem hafa verið starfandi á vinnumarkaði framreiknaðan lífeyrisrétt sem skiptir verulegu máli.

En það er ekki allt fengið með því vegna þess að jafnvel þótt lífeyrisréttur þinn sé framreiknaður og verði sambærilegur við það sem þú hefðir að loknum vinnudegi þá er það yfirleitt ekki nema um 60% af tekjum. Það getur verið meira, getur verið hærra, getur verið 80%, jafnvel hærra. En hin almenna regla er þessi. Sums staðar er þetta minna. Sums staðar er þak hjá einhverjum lífeyrissjóðnum, um 60% af tekjum. Það sem um er að ræða þá fyrir öryrkjann sem fær framreikning úr lífeyrissjóði er að vera ekki aðeins síðustu æviárin heldur alla ævina með slíkar tekjur. Þess vegna þarf að koma viðbótarframlag til sögunnar.

En það sem er gott í þessu samkomulagi er að horft er fyrst til þess sem aldrei fer út á vinnumarkað og fær engan slíkan framreikning. Þetta er gott. Síðan kemur framlag til annarra einnig en eftir þessari línulegu reglu. Mér finnst þetta mjög góð hugsun og góður samningur og þess vegna fagnaði ég honum.

Sannast sagna var það þannig þar til fyrir örfáum dögum að ekki komst hnífurinn á milli formanns Öryrkjabandalags Íslands og hæstv. heilbrrh. Þeir voru fullkomlega samstiga í öllum sínum yfirlýsingum. Það er ekki fyrr en núna á síðustu metrunum að menn eru farnir að túlka málin á mismunandi vegu. Þá eru menn skyndilega farnir að hengja sig í upphæðina, áætlaðan tilkostnað við samninginn en ekki útfærsluna og samninginn sjálfan eins og eðlilegt er að gera.

Ég tek undir það sem kom fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars að iðulega eru gerðir kjarasamningar sem byggja á röngu kostnaðarmati. Það hefur hins vegar ekki það í för með sér að menn standi ekki við kjarasamninginn og virði hann ekki. Þetta er í fyrsta skipti sem ég heyri að kjarasamningur sé ekkert annað en kostnaðarmat. Kjarasamningur fjallar um innihald og útfærslur, upphæðir til einstaklinga. Ef menn byggja á röngu kostnaðarmati þá leiðrétta menn kostnaðarmatið en ekki samninginn með því að brjóta hann. Um það snýst þetta mál.

Eins og ég segi og ég ítreka það, alveg fram undir það síðasta bar hæstv. heilbrrh. og forsvarsmönnum Öryrkjabandalagsins fullkomlega saman í yfirlýsingum sínum. Það eina sem menn eru að fara fram á er að menn leiðrétti þessar mistúlkanir. En það sem gerir menn reiða innan þings sem utan er náttúrlega í fyrsta lagi að verið er að brjóta samning sem er óafsakanlegt undir öllum kringumstæðum. En að það skuli gert með þessum hætti, undirritað og básúnað og auglýst rétt fyrir kosningar og síðan brotið að þeim loknum, það gerir málið enn þá verra og það veldur þessari reiði.

Það hefði verið fróðlegt að fá umræður um það hver staða öryrkja almennt er. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hóf hér mikinn lestur um hver dýrir öryrkjar væru samfélaginu og hvaða byrðar launafólk yrði að bera þeirra vegna. Mér fannst þetta sannast sagna mjög ógeðfelldur lestur. Mér fannst það. Ég held að samfélagið almennt líti ekki svona á. Ef einhver veikist eða heftist eða eitthvað kemur fyrir sem gerist nú í allflestum fjölskyldum þá tökum við sameiginlega á því máli og þar er ekki um neinar ölmusur að ræða, alls ekki. Enda þegar horft er til þeirra sem hafa samið um þessi mál og öryrkja almennt þá þurfa þeir ekki á neinni slíkri vorkunnsemi að halda.

Það er hins vegar staðreynd að öryrki, fatlaður maður eða veikur, þarf að bera margvíslegan tilkostnað sem aðrir þurfa ekki að bera þannig að í rauninni væri ekkert óeðlilegt að hinn fatlaði maður hefði meiri tekjur en sá sem ekki á við slíka fötlun að stríða. Tilkostnaður hans er meiri.

En það sem við erum að tala um hér eru í rauninni agnarsmáar upphæðir. Það þekkjum við öll þegar við förum og tökum bensín á bílinn eða förum út í búð að versla eða þegar fólk þarf að borga húsaleiguna sína, að þá eru þetta ekki miklar tekjur sem einstaklingur fær sem ekki hefur farið út á vinnumarkað og kemur til með að fá 115 þús. kr. á mánuði. Þetta eru ekki miklir peningar sem verið er að óskapast yfir.

Mér finnst það svolítið undarlegt að ríkisstjórn sem gumar af fjárlagafrv. sem samþykkt var hér í gær og á að skila í tekjuafgang 6 þús. 770 millj. kr., ef ég man rétt, skuli ekki slá örlítið af þessum tekjuafgangi, eigum við að segja um 528 millj., og leiðrétta þannig þetta mál. Það er enn þá tími til stefnu.