Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:40:16 (2940)

2003-12-06 15:40:16# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:40]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Þegar menn eru að greina mál af þessu tagi eiga menn alltaf að leggja áhersluna á aðalatriði málsins en ekki gleyma sér í aukaatriðum og draga athyglina frá aðalatriðum með því að setja sjálfir fram sínar óskir sem ganga lengra. Það er gamalt trikk í því þegar menn vilja gera lítið úr því sem vel til tekst eins og gerðist í þessu máli. Það hefur ekki í annan tíma náðst betra samkomulag milli ríkisvalds og Öryrkjabandalagsins til að bæta hag öryrkja. Aldrei. Ég skora á hv. þingmann að benda mér á það dæmi ef það er til, hvenær ein ríkisstjórn hefur með einni aðgerð bætt kjör þessa hóps meira. Ég vil segja, herra forseti: Það hefur aldrei fyrr verið gert svona mikið átak eins og nú.

Við getum svo haft skoðanir á því hver fyrir sig að menn vilji ganga lengra. Ég heyri að hv. þm. segir að hann vildi ganga lengra. Það efa ég ekki að hann mæli af heilum hug. Ég get sagt líka fyrir mitt leyti: Ég vil ganga lengra. Ég lít ekki svo á að við höfum lokið því verki að bæta kjör öryrkja á Íslandi. Ég lít svo á að hér sé aðeins um að ræða áfanga á langri leið. En á þeim átta árum sem liðin eru síðan við tókum við forræði þessa málaflokks hefur vel til tekist og kjör öryrkja hafa verið bætt á þeim tíma mjög mikið og mér er til efs að hægt sé að finna annað tímabil þar sem kjör þeirra hafa verið bætt meira en á þessu tímabili.

Ég get sagt, herra forseti, að ég er alveg sammála því sjónarmiði sem hér hefur komið fram í ræðustól, og víðar, að menn eigi að stefna að því að halda áfram að bæta kjör öryrkja eftir þeim hugmyndum sem Öryrkjabandalagið hefur sett niður. Ég styð þær hugmyndir. Ég vil vinna að því að uppfylla þær til fulls. En það er bara þannig með óskir hagsmunasamtaka að þær ná ekki alltaf fram að ganga í einu vetfangi.