Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 15:44:29 (2942)

2003-12-06 15:44:29# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, GÓJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[15:44]

Guðjón Ólafur Jónsson:

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða frv. til breytinga á lögum um almannatryggingar sem til er komið vegna samkomulags sem ríkisstjórnin og hæstv. heilbr.- og trmrh. gerði fyrir hennar hönd við Öryrkjabandalagið, þ.e. formann þeirra samtaka fyrir þeirra hönd.

Það er merkilegt við þessar umræður, hæstv. forseti, að því hefur verið haldið fram að þetta samkomulag hafi verið einhver kosningabrella. Hæstv. heilbrrh. hafi skyndilega dottið í hug að semja við formann Öryrkjabandalagsins um hækkun örorkubóta, einn, tveir og þrír, rétt fyrir kosningar.

Hvernig skyldi þetta hafa verið, hæstv. forseti? Það höfðu staðið yfir viðræður á milli Öryrkjabandalags Íslands og hæstv. heilbr.- og trmrh. frá því í febrúar 2002. Er það kosningabrella Framsfl.? Þetta er líklega það aumlegasta í málflutningi stjórnarandstöðunnar og hv. þingmanna hennar.

Hvað fólst í þessum samningi? Það liggur fyrir að á þessu tímabili, frá því í febrúar 2002 og fram í mars 2003 þegar þetta samkomulag var gert, gengu á milli manna ýmsar hugmyndir. Formaður Öryrkjabandalagsins kom t.d. til hæstv. heilbrrh. með hugmyndir um að bæta kjör öryrkja um 600--700 millj. kr. Hvar eru hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar sem vilja að staðið verði við það samkomulag að settar verði 600--700 millj. kr. í að bæta grunnlífeyri öryrkja?

Hæstv. forseti. Menn greinir á um hvað fólst í þessu samkomulagi. Svo virðist sem gjörvöll stjórnarandstaðan hafi legið á gægjum í viðræðum hæstv. heilbrrh. og formanns Öryrkjabandalagsins. Þar hafi menn hver um annan þveran staðið og hlerað og heyrt að það ætti að greiða öryrkjum 1.528,8 millj. kr. Hvaðan fá menn þessar 1.528,8 millj. kr.? Frá Tryggingastofnun. Af hverju? Af því að það var verið að reikna út eina af þeim hugmyndum sem starfshópurinn kom með.

Ég vek athygli hv. þingmanna á því að starfshópurinn lagði til að þessi hækkun tæki gildi 1. janúar 2005 en ekki 2004. Hefur einhver hv. þm. lagt til að þetta frv. tæki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2005 af því að það hafi verið í einhverju samkomulagi við Öryrkjabandalag Íslands? (ÖJ: Var það í samkomulaginu?) Voru 1.528,8 millj. kr. í samkomulaginu? Heyrði hv. þm. það þegar hann lá á hleri? Auðvitað heyrði hann það ekki. Nú kemur hver hv. þm. stjórnarandstöðunnar um annan þveran í pontu og vitnar um að hann hafi legið á hleri og gægjum og heyrt 1.528,8 millj. kr. Það er hin heilaga tala.

Það væri ekki úr vegi, hæstv. forseti, að líta á hvað felst í þessu samkomulagi. Hvað felst í þessu samkomulagi?

1. Stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.

Er staðið við það? Já, þetta frv. er einmitt til þess að standa við það.

2. Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fá þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins.

Hvað er verið að gera í þessu frv., hæstv. forseti? Er ekki verið að gera það að verkum að um næstu áramót muni grunnlífeyrir yngstu öryrkjanna, þeirra sem yngstir urðu öryrkjar, tvöfaldast? Geta menn verið að væla yfir því, hæstv. forseti? Geta menn verið að kvarta yfir því? (ÖJ: Á að biðja guð að hjálpa þeim?) Já, hv. þm., það væri nær að biðja guð að hjálpa þeim (ÖJ: Og vera þakklátir fyrir það sem að þeim er rétt.) sem sýna þess háttar framkomu. Ég mun koma frekar að því síðar í ræðu minni.

3. Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.

Hvað þýðir þetta, hæstv. forseti? Ég heyrði einn hv. þm. tala um að þetta þýddi einhverja línulega lækkun. Hvar kemur það fram í þeim gögnum sem lögð voru fram um þetta samkomulag? Hvar kemur það fram, hæstv. forseti? Það hefur kannski komið fram þegar hv. þingmenn lágu á gægjum og hleruðu að það ætti að vera einhver línuleg lækkun (Gripið fram í: Það er í blaðinu.) og koma nú og vitna um það.

4. Hækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2004.

Þess vegna er akkúrat verið að leggja þetta frv. fram núna rétt fyrir jól þannig að hægt sé að afgreiða þetta mál fyrir jólin þannig að hækkun grunnlífeyris komi til framkvæmda 1. janúar 2004.

Í samkomulaginu eru síðan önnur atriði, m.a. um starfshæfingu öryrkja og fleira sem kannski er ekki ástæða til að rekja af þessu tilefni.

Þá kemur að næstu spurningu, hæstv. forseti. Hefur þessi starfshópur sem menn vitna svo til lokið störfum? Hefur hann lokið störfum? Hefur einhver séð álit frá þessum starfshóp? Hér eru menn að vitna í starfshóp sem er enn að störfum. Það er svolítið sérkennilegt, hæstv. forseti.

Eins og ég gat um áðan gerði starfshópurinn ýmsar tillögur og varpaði fram ýmsum hugmyndum um útfærslur á þessu samkomulagi. Þær voru ýmsar reiknaðar og m.a. lagði starfshópurinn til, eins og ég gat um áðan, að þessar tillögur kæmu til framkvæmda 1. janúar 2005. Það er sem betur fer enginn sem styður það og berst gegn okkur framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum í því.

Það sem skiptir mestu máli, hæstv. forseti, er að hér er um að ræða mestu réttarbætur öryrkja í áratugi. Það er einfaldast í þessu sambandi, hæstv. forseti, að nefna tölur, krónur og aura, þannig að menn skilji í eitt skipti fyrir öll hvað ríkisstjórnin er að gera og hvernig hún vill bæta hag öryrkja.

Í fyrsta lagi má benda á að einhleypur öryrki sem var metinn 75% öryrki 18 ára var með 17.594 kr. í grunnlífeyri árið 2000. Á næsta ári verður sami öryrki með 42.498 í grunnlífeyri. Heildargreiðslur almannatrygginga til þessa öryrkja voru 72.855 kr. árið 2000. Þær verða 126.547 kr. á næsta ári. Hækkunin frá árinu 2000 er 74%. Frá árinu 2001 er hækkunin 58%. Frá síðasta ári er hækkunin 41%. Hvernig geta hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar talað um að það sé ekki verið að bæta hag öryrkja (LB: Hver hefur sagt það?) og það sé verið að svíkja samkomulag öryrkja? (Gripið fram í: Það er annað mál.) Hvernig geta hv. þingmenn haldið því fram?

Fyrir utan þessar hækkanir, hæstv. forseti, hefur verið dregið verulega úr áhrifum atvinnutekna til skerðingar á bótagreiðslum öryrkja. Frá miðju ári koma einungis 60% af atvinnutekjum öryrkja til skerðingar á tekjutryggingu í staðinn fyrir 100% áður. Þá er sömuleiðis dregið úr áhrifum tekna á skerðingu bótagreiðslna frá 1. janúar 2002 með því að lækka skerðingarhlutfall tekjutryggingarauka úr 67% í 45%.

Það liggur fyrir að í tíð þessarar ríkisstjórnar, frá árinu 1995, hefur vísitala, kaupmáttur ef hægt er að tala um það, allra bóta hækkað um 46% frá árinu 1995. Kaupmáttur launa hefur á sama tíma hækkað um 34%. Kaupmáttur launa hefur aukist um 10% frá árinu 2000. Kaupmáttur allra bótaþega örorkulífeyrisþega hefur hækkað um rúmlega 24% á síðustu missirum. Það er fjórðungshækkun og enn eru menn að tala um að það sé verið að svíkja öryrkja.

Það er auðvitað hægt, eins og gert hefur verið í þessari umræðu, að rekja þær hækkanir sem átt hafa sér stað á greiðslum til öryrkja á síðustu missirum og árum. Til að mynda hafa bætur almannatrygginga, óskertar mánaðargreiðslur til einhleyps örorkulífeyrisþega, hækkað frá árinu 1995 um 135%, frá því að þessi ríkisstjórn tók við völdum. Svo leyfa hv. þingmenn sér að segja að ríkisstjórnarflokkarnir séu í stöðugu stríði við öryrkja. Hvers lags bull er þetta, hæstv. forseti? (Gripið fram í.) Hvers lags bull er þetta?

Það liggur fyrir að öryrki sem var með 52.382 kr. á árinu 1995 verður með 126.547 kr. á næsta ári svo fremi sem stjórnarandstaðan kemur ekki í veg fyrir afgreiðslu þessa frv. á hinu háa Alþingi. 126.547 kr. og svo er mönnum brigslað um svik. 135% hækkun frá árinu 1995 á rúmum tveimur kjörtímabilum.

Það væri auðvitað gaman, hæstv. forseti, ef hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hefðu yfir einhverju að státa og samanburð sem væri þeim í vil. En því fer auðvitað fjarri. Málflutningur þeirra á hinu háa Alþingi er auðvitað fyrir neðan allar hellur. Kannski gekk hann lengst í gær þegar hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, fyrrv. heilbrrh., fór að agnúast út í þetta samkomulag hæstv. heilbrrh. og öryrkja, þennan milljarð sem setja á aukalega til hækkunar grunnlífeyris. Þá vissi ég, hæstv. forseti, ekki hvort ég ætti að hlæja eða gráta svo ég segi bara alveg eins og er.

[16:00]

Því hefur verið haldið fram af hv. þm. stjórnarandstöðunnar að það sé alltaf verið að draga saman í heilbrigðiskerfinu, málefnum fatlaðra, almannatryggingakerfinu. En hvað kemur í ljós ef við skoðum til að mynda afgreiðslu fjárlaganna í gær, hæstv. forseti? Í heilbrigðiskerfið á næsta ári verður varið 10 milljörðum meira en á þessu ári. Hækkunin nemur 10 milljörðum kr. Og hvað gerðu hv. þm. stjórnarandstöðunnar þegar verið var að afgreiða fjárlagafrv. í gær? Stóðu þeir að þessari hækkun? Nei, þeir treystu sér ekki til þess að styðja það frv. Skyldu hv. þm. stjórnarandstöðunnar hafa greitt atkvæði með fjárlagafrv. sem fól í sér hækkun grunnlífeyris öryrkja um 1 milljarð kr., 1.000 millj.? Nei, hv. þm. stjórnarandstöðunnar gátu ekki samþykkt það frv.

Hvað gerðu hv. þm. stjórnarandstöðunnar þegar verið var að afgreiða fjárlagafrv. í gær sem gerði ráð fyrir hækkun til málefna fatlaðra um 350 millj. kr.? Skyldu þeir hafa stutt það fjárlagafrv.? Nei. Þeir sögðust ekki geta stutt það fjárlagafrv., sex ný sambýli á næsta ári á höfuðborgarsvæðinu og hv. þm. stjórnarandstöðunnar gátu ekki einu sinni stutt fjárlagafrv. þar sem gert er ráð fyrir þessari hækkun. (ÖJ: Að uppistöðu minni hækkun.) Það sem skiptir máli er þetta, hæstv. forseti, að á næsta ári verður varið 3,8 milljörðum kr. til grunnlífeyris örorkubóta. Það voru 2,8 milljarðar kr. á þessu ári. 1 milljarður kr., 1.000 millj. kr., ekki 10% hækkun, ekki 20% hækkun, ekki 30% hækkun heldur 36% hækkun. Geta hv. þm. nefnt einhver dæmi um annan eins áfanga í réttindabaráttu öryrkja á síðustu áratugum? Nei, og nú eru hv. þm. stjórnarandstöðunnar steinrunnir í salnum og af hverju er það? (ÖJ: Þetta er svo góð ræða.) Vegna þess að þeir hafa ekki yfir nokkru að státa. (Gripið fram í: Frábær málflutningur.) Það er auðvitað þannig, hæstv. forseti, að það er þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. sem setið hefur við völd frá árinu 1995 sem hefur gert hvað mest til að bæta kjör öryrkja eins og ég hef rakið í þessari ræðu minni. (Gripið fram í: Talaðu svolítið um öryrkja ...)

Það er stundum sagt, hæstv. forseti, að laun heimsins séu vanþakklæti. Hvert er óhæfuverkið sem ríkisstjórnin hefur unnið gagnvart öryrkjum að þessu sinni? Hvaða níðingsverk er það sem stjórnarandstaðan talar svo mikið um? (Gripið fram í: Að svíkja samninginn.) Jú, níðingsverkið er það að bæta 1.000 millj. kr. við grunnlífeyri örorkubóta. Ekki gátu hv. þm. stjórnarandstöðunnar greitt atkvæði með fjárlagafrv. sem fól það í sér í gær. Það var sagt á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar og það er rétt. Það er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar og ríkisstjórnarflokkanna og það eru þeir flokkar og hv. þm. stjórnarflokkanna sem eru að bæta hag öryrkjanna. Stjórnarandstaðan og hv. þm. hennar eiga engan þátt í því máli.