Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:08:23 (2947)

2003-12-06 16:08:23# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Þuríður Backman (andsvar):

Hæstv. forseti. Þegar samningar eru gerðir á hinum frjálsa vinnumarkaði eða hjá hinu opinbera liggja launataxtar fyrir. Það má líta á þetta samkomulag sem gert var milli Öryrkjabandalagsins og heilbrrh. sem samkomulag um kjör og útfærsluna á því hvernig eigi að greiða eða draga úr bótum til öryrkja eftir aldri sem nokkurs konar launataxta. Útfærslan á skerðingu aldurstengdra örorkubóta lá fyrir og því var hægt að handsala þetta samkomulag á þeirri forsendu einni, þó svo að það væri eingöngu talað um rúman milljarð, vegna þess að forsendurnar lágu fyrir.

Hæstv. heilbrrh. sagði á Alþingi 26. nóvember að einungis yrði staðið við 2/3 samkomulagsins 1. janúar 2004 og muni afgangurinn koma til framkvæmda ári síðar. Hann sem sagt viðurkenndi að það væri eingöngu verið að standa við 2/3 samkomulagsins.