Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:16:47 (2955)

2003-12-06 16:16:47# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:16]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er aumkunarvert að hlusta á hv. varaþm. Guðjón Ólaf Jónsson vera að reyna að kjafta sig út úr því hvernig framsóknarmenn hafa svikið þetta samkomulag við öryrkjana. Hann er hér með stærilæti, derring og útúrsnúninga þegar Framsfl. er búinn að hafa níu ár til að bæta kjör öryrkja og í góðærinu. (Gripið fram í.) Hvað hefur gerst, herra forseti? Það sem hefur gerst er það (Gripið fram í.) að öryrkjar hafa þurft að sækja allar þessar kjarabætur gegnum dómstólana. Það ætti lögmaðurinn að vita. Í gegnum dómstóla þurftu þeir að sækja þær. Allir flokkar lofuðu því fyrir kosningar að standa við útfærslu Öryrkjabandalagsins á því að hækka grunnlífeyri til öryrkja. Allir flokkar og Framsfl. líka, en hann er að svíkja (Gripið fram í.) það núna, því miður. Það verðið þið bara að skilja að því miður eru þeir að svíkja þetta.