Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:20:50 (2959)

2003-12-06 16:20:50# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, SigurjÞ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:20]

Sigurjón Þórðarson:

Herra forseti. Við erum að ræða breytingar á lögum um almannatryggingar og þetta mál fjallar um kjör öryrkja og þá sérstaklega um kjör ungra öryrkja. Það er athyglisvert að sjá ekki hæstv. landbrh. í salnum því að hann lét hér dólgslega við atkvæðagreiðslu um ... (Gripið fram í.) Ja, hann lét skoðun sína sérstaklega í ljós og ég vil leyfa mér að segja að hann hafi látið dólgslega í garð öryrkja við atkvæðagreiðslu fjárlaga. Það mætti halda að hann hafi haldið námskeið fyrir unga varaþingmenn Framsfl. vegna þess að umræðan hér hefur í raun ekki verið mjög málefnaleg af hálfu framsóknarmanna. Ég vil leyfa mér að segja það, og vegna forsögu þessa máls sem hér er til umræðu, þá væri miklu nær að ræða um heilindi Framsfl.

Þess ber að geta að það eru fleiri en við í Frjálslynda flokknum sem erum farin að efast um heilindi Framsfl. vegna þess að við sjáum það að hæstv. heilbrrh. er að ganga á bak samkomulagsins og ungir framsóknarmenn í Skagafirði sjá þetta líka. Það má lesa það í nýjasta Feyki, fréttablaði á Norðurlandi vestra, að þeir hafa samið sérstaka ályktun um þetta og ég vil fá að vitna í þessa ályktun, með leyfi herra forseta:

,,Stjórn ungra framsóknarmanna í Skagafirði lýsir yfir miklum vonbrigðum með að samkomulag heilbrigðisráðherra og Öryrkjabandalags Íslands skuli ekki koma til framkvæmda að fullu um komandi áramót. Skorað er á þingmenn Framsóknarflokksins að standa vörð um samkomulagið og koma þar með í veg fyrir að ungir öryrkjar verði fórnarlömb frjálshyggjumeinloku fjármálaráðherra.``

Með öðrum orðum: Ungir framsóknarmenn í Skagafirði segja það að hv. þingmenn Framsfl. séu dregnir áfram af frjálshyggjumeinloku. Það fer heldur ekki milli mála að ungir framsóknarmenn í Skagafirði telja að það sé verið að svíkja samkomulagið sem hæstv. heilbrrh. handsalaði við formann Öryrkjabandalagsins, Garðar Sverrisson. Hvernig má það vera að hæstv. heilbrrh. skuli ganga á bak orða sinna og svíkja samkomulag sem hann handsalaði? Hvernig stendur á því að hann gerir það? Maður veltir þessu óneitanlega fyrir sér. Hæstv. heilbrrh. var það ánægður með samkomulagið að hann sá ástæðu til að rita grein um það í Morgunblaðið þar sem hann gerði rækilega grein fyrir því hve þetta væri gott samkomulag og ég vil fá að grípa niður í grein hans frá 27. mars, með leyfi herra forseta:

,,Á blaðamannafundinum í fyrradag var spurt hvort samkomulagið nú væri nokkuð annað en rétt og slétt kosningabomba. Ekkert er eðlilegra en fréttamenn spyrji spurninga af þessu tagi í aðdraganda kosninga. Það sem athyglisvert var á fundinum með blaðamönnum var að báðir aðilar, bæði sá sem þetta ritar og Garðar Sverrisson, formaður ÖBÍ, lýstu yfir að þannig bæri ekki að skilja niðurstöðuna og báðir sögðumst við sannfærðir um að enginn stjórnmálaflokkanna mundi einn eða í samráði við aðra flokka reyna að rokka við því samkomulagi sem gert hefur verið.``

Nú liggur fyrir í fjárlagafrv. sem samþykkt var í gær að hæstv. heilbrrh. greiddi sjálfur atkvæði með því að samkomulagið við öryrkja yrði ekki efnt. Eina vörn hæstv. ráðherra fyrir að efna ekki umrætt samkomulag er að hann hafi ekki vitað hvað samkomulagið kostaði. Hann segist ekki hafa vitað af því fyrr en í ágúst. Hvernig má það vera?

Nú liggur fyrir að ráðuneyti hæstv. ráðherra Jóns Kristjánssonar, heilbr.- og trmrn., hafði undir höndum útreikninga vegna samningsins við öryrkja þann 10. apríl sl. eða um hálfum mánuði eftir að hæstv. ráðherra talar um að samkomulagið sé alls engin kosningabomba. Og ég spurði hæstv. ráðherra í dag hver bæri ábyrgð á þessu kostnaðarmati sem gert var fyrir heilbr.- og trmrn. 10. apríl. Ég fékk engin svör um það hver bæri ábyrgð á því og það væri þá ákaflega gott að fá að heyra það í lokaræðu hæstv. heilbrrh. hver bæri ábyrgð á þessu. En nú virðist þetta bara vara marklaust plagg sem hafi enga merkingu í málinu.

Menn hafa komið hér hver á eftir öðrum undanfarna daga og hæla manneskjunni Jóni Kristjánssyni og ég skal ekki draga það í efa að hann sé mjög góður drengur. Ég kannast við margt hans fólk og þekki það að góðu einu. Samt sem áður hlýtur framganga hæstv. ráðherra í þessu máli að vekja upp alvarlega spurningu um hvort hæstv. ráðherra sé hæfur til að gegna svo mikilvægu starfi sem embætti ráðherra. Ég er farinn að drag það alvarlega í efa, hæstv. ráðherra. Framganga hans í þessu máli er langt frá því að vera traustvekjandi. Það er alls ekki traustvekjandi að skrifa eða handsala samning upp á 1.500 millj. kr. og halda að hann sé 500 millj. kr. lægri. Það er ekki traustvekjandi.

Ég er nýliði á þinginu og ég spyr því: Ætli það séu fleiri dæmi um það að ráðherrar skrifi upp á samning og viti ekkert hvað þeir eru að skrifa undir eða handsali samninga eins og hér hefur komið fram? Og það er heldur ekki traustvekjandi fyrir hæstv. ráðherra þegar það liggur ljóst fyrir að útreikningar vegna samkomulagsins við öryrkja hafi verið tiltækir í ráðuneyti hans sjálfs frá 10. apríl en hann fréttir ekki af útreikningunum fyrr en í ágúst, ef marka má fréttaflutning Fréttablaðsins. Hann fréttir í rauninni ekki af þeim fyrr en fjórum mánuðum eftir að þeir liggja fyrir í ráðuneytinu. Þetta er ekki mjög traustvekjandi.

Ef við skoðum þessa útreikninga og hvað þeir þýða í raun, þá má segja að ef maður er greindur öryrki 43 ára, þá er aldurstengdur örorkulífeyrir 50% samkvæmt samkomulaginu sem gert var við öryrkja og hæstv. ráðherra skrifaði um í Morgunblaðinu en við það, eins og þeir segja ungir framsóknarmenn í Skagafirði, að hann er dreginn áfram af frjálshyggjuöflunum þá verður þetta að 10% aldurstengdum örorkulífeyri.

Þess ber að geta að samningurinn við öryrkja var Framsfl. ofarlega í huga í kosningabaráttunni síðastliðið vor og þeim mun undarlegra að ráðherra hafi ekki leitað eftir því hvað samningurinn kostaði í raun og veru. Þetta er alls ekki traustvekjandi stjórnsýsla.