Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:47:25 (2965)

2003-12-06 16:47:25# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:47]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. heilbrrh. Jóni Kristjánssyni að samskipti okkar hafa yfirleitt verið mjög góð, enda deilum við grundvallarhugmyndum og -hugsjónum varðandi velferðarþjónustuna og uppbyggingu hennar. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi að mörgu leyti staðið sig afar vel hvað þetta snertir.

Í þessu tiltekna máli er ég hins vegar mjög ósáttur við hæstv. ráðherra, og ég er mjög ósáttur við Framsfl. og framgöngu hans í þessum málum. Það hefur komið fram að samningur var gerður við Öryrkjabandalag Íslands. Hæstv. ráðherra staðfesti fyrir stundu að menn hefðu staðnæmst við tiltekna leið. Frá þessari leið var greint í fjölmiðlum, í Morgunblaðinu og í Ríkisútvarpinu, um hvað grunnlífeyrir ætti að hækka og hvernig skerðingu ætti að haga fram til 67 ára aldurs. Það var greint frá forsendum samningsins. Það sem síðar átti eftir að koma í ljós var að kostnaðarmat á þessum samningi reyndist vera rangt.

Nú upplýsir hæstv. ráðherra okkur um að til hafi staðið að íhuga aðrar dagsetningar en þjóðinni var greint frá í Þjóðmenningarhúsinu í marslok. Þá spyr ég um framkomu gagnvart kjósendum vegna þess að þetta mál snýr ekki einvörðungu að Öryrkjabandalagi Íslands. Það snýr einnig að kjósendum í alþingiskosningunum vorið 2003.

Og er það rétt sem hæstv. ráðherra var að upplýsa okkur um hérna áðan, eða misheyrði ég það, að menn hafi eftir alla auglýsingamennskuna í kringum þennan samning verið að íhuga að breyta dagsetningum?