Almannatryggingar

Laugardaginn 06. desember 2003, kl. 16:54:17 (2969)

2003-12-06 16:54:17# 130. lþ. 44.3 fundur 418. mál: #A almannatryggingar# (aldurstengd örorkuuppbót) frv. 130/2003, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 44. fundur, 130. lþ.

[16:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að svara fyrirspurn úr ræðu minni hér fyrr í dag varðandi 16--18 ára öryrkja. Hæstv. ráðherra svarar því til að foreldrar öryrkja sem eru á því aldursbili fái umönnunargreiðslur. En það eru ekkert allir endilega með foreldra sem fá umönnunargreiðslur. Samkvæmt almannatryggingalögunum eru örorkulífeyrisgreiðslurnar frá 16 ára aldri, og það er ekki gert ráð fyrir því í þessari lagasetningu að 16 og 17 ára öryrkjar fái neina kjarabót.

Við vitum að allar þessar breytingar á almannatryggingalögunum undanfarið hafa leitt af sér, margar hverjar, alls konar göt og glufur. Ég held að hér sé verið að ganga fram hjá ákveðnum hópi öryrkja því að 16 og 17 ára öryrkjar, sem eiga rétt á örorkulífeyrisgreiðslum frá almannatryggingunum samkvæmt lögunum, fá ekki neina kjarabót samkvæmt þessu.

Ég fer fram á það, herra forseti, að það verði skoðað í nefndinni. Það er fullkomlega óeðlilegt ef það er verið að gera svona kjarabætur, sem þetta vissulega er --- við erum alveg sammála um að þetta eru vissar kjarabætur, verulegar fyrir þá sem fá mest --- að þarna skuli vera hópur sem ekki fær neitt. Mér finnst full ástæða til að skoða það.