Beint millilandaflug frá Akureyri

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:34:17 (2973)

2003-12-10 10:34:17# 130. lþ. 46.3 fundur 396. mál: #A beint millilandaflug frá Akureyri# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi HlH
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:34]

Fyrirspyrjandi (Hlynur Hallsson):

Herra forseti. Sl. vor hóf Grænlandsflug beint áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Það var gert með stuttum fyrirvara og án mikillar markaðssetningar. Fólk af Norðurlandi gerði sér vonir um að þetta væri aðeins byrjunin á reglulegu áætlunarflugi beint frá Akureyri til Evrópu og tók þessu flugi fagnandi.

Fyrir nokkrum dögum hætti flugfélagið þessu áætlunarflugi. Sú ákvörðun var tekin með enn styttri fyrirvara. Á þeim sjö mánuðum sem Grænlandsflug bauð upp á beint flug tvisvar í viku nýttu tæplega 8 þús. farþegar sér að fljúga með félaginu þessa flugleið. Um 90% af flugmiðunum var seldur af ferðaskrifstofum á Akureyri og mikill meiri hluti farþeganna kom af Norðurlandi en aðeins lítill hluti frá Kaupmannahöfn. Þessa tölur segja okkur að þrátt fyrir litla markaðssetningu á Norðurlandi og stuttan fyrirvara tóku Norðlendingar þessu flugi fegins hendi og nýttu sér það óspart. Bókanir fyrir næsta ár bentu til þess að mikil aukning yrði og fólk var bjartsýnt á að þetta flug væri komið til að vera. Þar sem engin markaðssetning fór hins vegar fram í Skandinavíu hvað þá Evrópu komu sárafáir farþegar þaðan.

Akureyri er gjarnan nefndur höfuðstaður Norðurlands með alþjóðlegan háskóla, öflugt atvinnulíf, blómlegt menningarlíf og ört vaxandi ferðaþjónustu og þarf á beinni tengingu við umheiminn að halda. Beinu áætlunarflugi fyrir farþega og fraktflutninga. Stór sjávarútvegsfyrirtæki á Akureyri gætu flutt út beint frá Akureyri á markaði í Evrópu. Það er óeðlilegt að allt millilandaflug fari fram um einn flugvöll á suðvesturhorni landsins. Það ætti öllum að vera enn ljósara eftir þessa tilraun sem að flestra mati tókst vel en endaði afar skyndilega.

Aðilar ferðaþjónustu á Norðurlandi ásamt fulltrúa frá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og bæjarstjóra Akureyrar hafa verið í sambandi við Maersk Air í Danmörku um að það flugfélag taki við flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar. Jákvæð svör hafa borist en með þeim skilyrðum að heimamenn séu tilbúnir að taka áhættuna af tapi fyrsta árið og greiði það ef af yrði. Ef öflugt markaðsstarf færi í gang í Danmörku og nálægum mörkuðum eins og Svíþjóð og Þýskalandi er áætlað að fjöldi þátttakenda fyrsta árið gæti orðið um 15--17 þús. Þetta er ekki eingöngu mikilvægt samgöngumál fyrir íbúa og fyrirtæki á Norður- og Austurlandi heldur einnig byggðamál. Því spyr ég hæstv. samgrh. tveggja spurninga sem ég veit ekki hvort ég hef tíma til að lesa upp aftur en þær eru skriflegar á blaði.