Beint millilandaflug frá Akureyri

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:48:56 (2981)

2003-12-10 10:48:56# 130. lþ. 46.3 fundur 396. mál: #A beint millilandaflug frá Akureyri# fsp. (til munnl.) frá samgrh., HBl
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:48]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það voru okkur að sjálfsögðu mikil vonbrigði þegar Grænlandsflug ákvað að hætta beinu flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, sérstaklega vegna þess að við höfðum ýmsir átt fundi með forustumönnum flugfélagsins og þeir fullvissuðu okkur um að ef þeir fengju heimild til þess að fljúga fram í októbermánuð á næsta ári yrði ekkert því til fyrirstöðu að fluginu yrði haldið áfram. Grænlandsflug fékk greitt fyrir málum sínum hér á landi eins og flugfélagið taldi nauðsynlegt til þess að það gæti haldið áfram flugi sínu. Þess vegna olli þetta okkur vonbrigðum.

Ég vil í annan stað segja að ef hugmyndin er sú að greiða sérstaklega með markaðsátaki fyrir beinu flugi milli Akureyrar og Kaupmannahafnar, sem ég er út af fyrir sig hlynntur, hljóta allir að standa þar jafnt að vígi. Þá hljóta slíkir styrkir að vera kynntir opinberlega þannig að allir eigi kost á því að sækja um þá og auðvitað get ég ekki fallist á að erlend flugfélög verði látin sitja fyrir styrkjum en íslensk flugfélög eigi ekki kost á samsvarandi þjónustu.