Endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga

Miðvikudaginn 10. desember 2003, kl. 10:58:03 (2985)

2003-12-10 10:58:03# 130. lþ. 46.2 fundur 262. mál: #A endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 46. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Suðurk. hefur beint til mín fyrirspurn í tveimur liðum um endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúklinga. Fyrst er spurt:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir eflingu endurhæfingardeildar krabbameinssjúklinga í Kópavogi og ef svo er, á hvern hátt?

Með aukinni tíðni krabbameina og auknum möguleikum á lækningu er þörf á endurhæfingu fyrir þennan hóp vaxandi. Endurhæfingin sannar æ betur gildi sitt og aukning hefur orðið á þeirri þjónustu undanfarna mánuði hér á landi. Mér er kunnugt um að margir þeir sem sótt hafa þjónustu á endurhæfingardeildinni í Kópavogi hafa verið mjög sáttir við hana og lýst mikilli ánægju með faglega þáttinn. Því voru lagðar 2 millj. kr. fyrir skemmstu í að efla þar starfsmannaþáttinn. Stjórnendur endurhæfingarsviðs líta svo á að starfsemin sé mjög nauðsynlegur þáttur meðferðar og vægi hennar muni aukast á komandi árum í takt við þróun annarrar meðferðar og bættar lífslíkur. Sama þróun á sér stað víða um lönd og er skemmst að minnast fréttar um spá Svía um sífellt stækkandi hóp krabbameinssjúklinga í sænsku samfélagi á komandi árum. Svíar telja að aukin útgjöld til þessa málaflokks séu óumflýjanleg. Rétt er að benda á að skipulögð endurhæfingarþjónusta við þennan hóp á Landspítala -- háskólasjúkrahúsi er til þess að gera nýhafin og hefur þörfum hópsins ekki verið mætt til fulls enn þá. Hér er um mikið hagsmunamál að ræða fyrir þennan sjúklingahóp og jafnframt miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt samfélag.

Önnur spurning þingmannsins er svohljóðandi: Verður áframhaldandi starfsemi tryggð á þeim stað sem hún er, þ.e. í Kópavogi?

Starfseminni er vel fyrir komið þar sem hún er nú og ekki eru fyrirhugaðar verulegar breytingar á því á næstunni. Eins og kunnugt er seldi ríkið nýverið Kópavogsbæ landið þar sem þessi þjónusta er nú til húsa. Í þeim samningum var tryggt að þessi starfsemi gæti haldið áfram í því húsi þar sem endurhæfingardeildin er nú, a.m.k. til nokkurra ára. Stjórnendur endurhæfingarsviðs telja svo alls ekki nauðsynlegt að binda endurhæfingu krabbameinssjúkra við núverandi staðsetningu í Kópavogi en þeim mun mikilvægara er að horfa á umfang verksins til framtíðar og hvernig því verði best komið innan ramma Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Ákvarðanir um staðsetningu hinna ýmsu starfseininga sjúkrahússins munu hafa mikil áhrif á allt endurhæfingarstarf á spítalanum að krabbameinsendurhæfingunni í Kópavogi meðtalinni.

Virðulegi forseti. Mér er vel ljós þörfin fyrir endurhæfingardeild fyrir krabbameinssjúka og tel að á komandi árum muni reynast nauðsynlegt að byggja þennan þátt upp enn betur en nú hefur verið gert. Stefnumótun í málefnum endurhæfingar er brýn því nú er verið að sinna endurhæfingu víða um land en sérhæfing í þessum málaflokki er mikilvæg.

Ég tel að endurhæfingu krabbameinssjúkra sé vel fyrir komið innan vébanda Landspítala -- háskólasjúkrahúss og að húsnæðið í Kópavogi henti starfseminni vel sem stendur. Eins og áður hefur komið fram vil ég þó ekki útiloka breytingar á skipulagi eða starfsemi því framþróun í þessum málaflokki er mjög ör.